Helgi situr á bekknum við Grófina. Það er snjómugga. Logn. Muggan setur blíðlegan svip yfir höfnina. Það er róandi að horfa yfir að Ægisgarði. Helgi er í fötum af ættingja sem lést skömmu fyrir jól. Sá hafði verið svipaður á hæð og Helgi en grennri. Fötin voru vandaðri en þau sem Helgi var vanur að klæðast. Loks er hann með rauða lambhúshettu á höfðinu. Örmjó rifa er fyrir augun. Lítið kringlótt gat við munninn.
Hannes stóð skammt frá. Hann hallaði sér upp að veggnum á einni verbúðinni. Hann hafði ætlað að hitta Helga en þekkti ekki þennan mann með lambhúshettuna. Ekkert af einkennum Helga var sjáanlegt og ályktaði Hannes að þarna sæti ókunnugur maður. Þegar liðlega hálftími var liðinn ákvað hann að fikra sig nær bekknum.
Hannes: Góðan dag.
Ekkert svar.
Hannes: Er þetta nokkuð Helgi?
Ekkert svar.
Hannes: Ég er þá að taka feil. Afsakaðu.
Ekkert svar.
Hannes: Þetta er ekki þægilegt. Fyrirgefðu.
Maðurinn á bekknum bærði ekki á sér. Hann horfði hreyfingarlaus yfir höfnina. Löng þögn. Hannes mældi manninn út. Leitaði að kunnuglegum einkennum. Fann engin. Bjóst til að fara.
Hannes: Ég sem ætlaði að borga honum skuld. Það verður þá að bíða.
Maðurinn sat grafkyrr. Hannes rölti af stað. Fór yfir á gangstéttina handan við Ægisgötuna Allt í einu er hrópað:
Helgi: Ertu með hana alla?
Hannes stansaði. Hann þekkti röddina. Snéri við og gekk að bekknum. Hann var sár.
Hannes: Ertu að gabba mig andstyggðin þín?
Helgi: Ertu með alla skuldina?
Hannes: Það veit ég ekkert um.
Helgi: Hvað ertu með mikið?
Hannes: Af hverju ertu með þessa lambhúshettu á hausnum. Þú ert eins og glóðarhaus?
Helgi: Ég var að mótmæla.
Hannes: Hverju varstu að mótmæla?
Helgi: Næg eru tilefnin.
Hannes: Og hvar í ósköpunum fékkstu hana?
Helgi: Ég prjónaði hana sjálfur.
Hannes: Heklaðirðu hana sjálfur?
Helgi: Já.
Hannes: Og af hverju rauða?
Helgi: Börnin á Gaza. Blóðið. Blóðið.