Loksins þegar Guðlaugur heilbrigðisráðherra kemur í ljós eftir margar vikur til hlés kemur hann fram með tillögur um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu um allt Ísland. Galvaskur eins og útrásarvíkingarnir voru fyrir fimm mánuðum, tætir hann gamalt fólk á milli stofnana, hækkar komugjöld á sjúkrahús og breytir gjaldskrám til hins verra fyrir alla sem veikburða eru.
Á sama tíma er milljörðum króna veitt til útvalinna einstaklinga eða teknar af þeim skuldir sem ríkið síðan ætlar að greiða og þá væntanlega með þeim krónum sem tekst að klípa af öldruðum og sjúkum. Fólkinu sem engum vörnum kemur við. Ekki yrði maður undrandi þótt einn daginn kæmi tilkynning um skatt á andlát einstaklinga.
Ráðherra án sóma – og ef ummæli Lúðvíks Geirssonar um skort á samráði við Hafnarfjarðabæ eru sönn (bærinn á 15% í St. Jósefsspítala), þá er hann sannarlega án blygðunar. Völtunarstíllinn ríkir. Spurning hvort St. Jósef sé fórnarlamb ríkisstjórnarsamstarfs sem er í andarslitum. „Collateral damage“ skylminga ráðherra. Nei, það getur ekki verið svona einfalt.