Í litlu þægilegu matarboði í fjölskyldunni í gærkvöldi, þar sem setið var yfir góðum mat og vinarþeli, bar margt á góma eins og gengur. Ræddar voru jólagjafir, bækur og hlutir. Allir lögðu til málanna.
Þar kom að kreppan var nefnd. Í framhaldi voru rifjuð upp fyrri tímabil þegar almenningur átti í afkomuerfiðleikum. Húsráðandi taldi gott fyrir börn sín að heyra af fyrri tímabilum. Þau væru alin upp í þessu svokallaða góðæri og þekktu naumast til skorts. Þegar kom að mér að segja frá nefndi ég þetta:
– Stundum vorum við bræðurnir, þá á aldrinum átta til tólf ára, sendir niður að höfn þegar vertíðarbátarnir komu að landi. Áttum við að leita uppi kunningja fjölskyldunnar og biðja þá um fisk í matinn. Á þessum árum hafði ýsa lítið verðgildi og brugðust sjómenn vel við beiðnum okkar. Fengum við gjarnan eins mikla ýsu og við gátum borið heim.
Þann vetur var ýsa í allan mat. Soðin ýsa, steikt ýsa, nætursöltuð ýsa og söltuð ýsa. Ýsa og aftur ýsa. Þótt ekki væri hægt að segja að við værum sólgin í hana þá urðum við södd af henni. Það var mikið mál þann veturinn.
Nú til dags er fiskur dýr. Flokkast undir lúxus í hugum margra. Hvaða ráð ætli fátækasta fólkið hafi til að seðja börnin sín þessar vikurnar?
Varla er hægt að reikna með því að ríkisstjórnir sem ekki gátu mætt þörfum þeirra fátækustu þegar allt var í blóma í landinu, geri það með neinum sóma þegar illa árar.
Kartöflur á 150 kr. kg. og uppúr (Kolaportið), frosin smáýsan á 500 kr. kg. (Kolaportið) og brauð á 300 kr. kg. (Kolaportið) er ekki gott að segja hvert menn geta flúið. Þú segir allt sem þarf. Án sóma.