Nú hvolfist flóðið yfir þjóðina. Stórir brimskaflar. Bækur. Orð. Hugsanir. Milljónir orða. Ofan í brimskafla krepputalsins. Það er mikil ágjöf um þessar mundir. Samt að verða komið nóg af krepputali. Meiri hluti þess froða. Tölum því um bækur. Næstu vikur að minnsta kosti.
Það er vandi að taka við svona mörgum bókum. Vandi að greina kjarna frá hismi. Í svona miklu brimi hlýtur að vera mikið af löðri. Þó eru ákveðin teikn um að meira seljist af hisminu. Auðvitað kemur einum ekkert við hvað öðrum finnst um bækur. En góðar bækur: Hverjar eru þær?
Mér þykir gaman að horfa og hlusta á Kolbrúnu og Pál Baldvin í Kiljunni. Stundum hafa þau sömu skoðun og ég og stundum hef ég svipaða skoðun og þau. Það er þó ekki nærri alltaf. Oft er ég þeim gjörsamlega ósammála. En bæði hafa þau próf upp á að hafa vit á bókum.
Tetrið ég hef ekkert próf í slíku. En sumar bækur, orð og efni, vekja með mér unað. Það er mér nóg.