Upp í hugann kemur, á þessum dögum, minning úr æsku. Hvernig hvein í rafmagnslínunum í norðanátt, í sveitinni í gamla daga. Nánar tiltekið við bæinn Svarfhól í Stafholtstungum. Og Siggi símastaur, þroskaheftur maður sem var vistaður þar, fór út á bæjarhólinn, lagðist á jörðina og þrýsti eyra upp að staurnum og talaði í staurinn. Stundum langtímum saman. Oftast talaði hann við mömmu sína sem átti heima á vestfjörðum. Siggi kvartaði gjarnan í staurinn yfir hlutskipti sínu og talaði illa um húsbændurna. Svo þegar ég spurði hann hvað væri að frétta af mömmu hans, laug hann að mér í langan tíma. Heilu sögunum. Og ég lærði að trúa ekki orði sem hann sagði.
Á liðnum vikum hefur fjölmiðlafrumvarp verið í umræðunni. Fyrirferðarmikil umræða, stóryrt og óheiðarleg í mörgum tilvikum. Má t.d. nefna könnun sem Fréttablaðið gerði og spurði fólk úti í bæ hvort það væri með eða á móti frumvarpinu, þótt við blasti að fæstir eða engir þeirra sem spurðir voru hefðu séð það og því ekki getað svarað af nokkru viti. Markmiðið var augljóslega að búa til frétt sem nota mætti í áróðrinum á móti frumvarpinu. Hagsmunagæslan verið tekin fram fyrir heiðarlega umræðu.
Þá heyrist af stjórnmálaflokkum sem berja á höfundum frumvarpsins og óskapast yfir tilurð þess. Býður manni í grun að á þeim bæjum séu hagsmunatengsl sem stjórna orðum þeirra og æði. En þannig hefur þetta verið í gegnum tíðina. Almenningur í landinu hefur búið við það áratugum saman að einskonar fjármálaskrímsli hafa sogið til sín arð þjóðarinnar. Samtök um arðrán. Eitt sinn var SÍS talið hið gráðuga skrímsli og ákveðinn stjórnmálaflokkur verndari þess, síðan Kolkrabbinn og annar stjórnmálaflokkur verndari hans
Þegar búið var að afhausa þessi tvö virðist svo sem önnur og enn gráðugri hafi sprottið upp. Skrímsli sem ofvöxtur hefur hlaupið í og afl þeirra orðið svo mikið að nánast ógerlegt er, verður, að koma böndum á þau. Það er því ekki út í bláinn að menn spyrja hvort fjármagnseigendur muni taka hin raunverulegu völd af alþingi. Hvort skrímslin séu orðin of stór fyrir litlu þjóðina í litla landinu.
Menn leita svara. En er nokkuð að marka svörin?