Við fórum upp í Borgarfjörð til að slaka á. Vonuðumst eftir næði frá þvarginu um spillinguna og kreppuna. Veðrið tók ljúflega á móti okkur. Logn, gráð og hiti um núll. Ekki hægt að hugsa sér það betra. En einn af þessum föstu siðum er að kveikja á útvarpi á fréttatímum.
Þar með var þvargið komið inn á gafl. Þessi óendanlegi orðaflaumur. Við vorum nú samt með bækur og reyndum að hverfa til þeirra. En frásagnir af atburðum helgarinnar leituðu á og lesturinn varð slitróttur. Þó var ég að lesa Gestinn eftir Albert Camus.
Þegar við komum heim í morgun fylgdumst með Silfri Egils. Það var heilmikil raun. Það koma stöðugt fleiri vond atriði fram þegar grafið er í hauginn og líklegt að enn sé margt vont falið þar. Atriði sem eiga eftir að draga verulega úr lífsgæðum okkar.
Einhvern veginn fær maður á tilfinninguna að aðstandendur ósómans séu ótrúlega kaldrifjað fólk. Hvergi vottur af iðrun. Hvergi vottur af auðmýkt. Og harðsvíraðir gjörningar enn í gangi. Ekki nema von að við frú Ásta spyrjum hvort annað hvernig okkur muni reiða af þegar aldan skellur á af fullum þunga.
Mér finnst vont að hafa á tilfinningunni að stjórnvöld haldi verndarhendi yfir gjörningafólkinu og gefi því kost á að halda sukkinu áfram.Verulega vont. Og á meðan fyrirliðar ríkistjórnarinnar tala tæpitungu og vantraust á þeim vex, þá hlýtur krafan um kosningar að verða háværari með degi hverjum.
Nákvæmlega svona hefur mér líka liðið síðustu 6-7 vikur,eins og þú skrifar…..og það versnar með hverjum deginnum,meiri og meiri spilling kemur í ljós,nú síðast með BYR,hvar endar þetta….
Camus er góður. Vona að ykkur Ástu vegni vel á þeirri þrautagöngu sem framundan er. Tað eru framundan borgaralegar handtökur og þá er voðinn vís og við endanlega ofurseld örlögum sem enginn ræður við. Því miður sváfum við á verðinum og létum þetta óþurftarfólk ná okkur í rúminu. Guð veri með okkur, það er enginn annar sem hefur áhuga á því.
Gjörningafólkinu? Nú fer ég að skilja, hvernig galdrafárið hefur orðið til fyrir nokkur hundruð árum, þegar gamlar, barnlausar konur í útjöðrum þorpa voru skyndilega brenndar fyrir galdra, af því að illa áraði. Sem betur fer mótmælti Árni Magnússon í frægum bæklingi. En ekki hafa allir lesið hann. HHG