Ógleymanlegar eru þær tilfinningar sem við upplifðum þegar við fórum um miðborgina. Við Ásta höfum komið tvisvar til Parísar. Nutum þess af ákaflega í bæði skiptin. Ráfuðum um brýrnar, litum inn í veitingastaði fræga af bókum, upplifðum matseðla á vinstri bakkanum með nefinu, skoðaðar kirkjur, Eiffel og Sigurbogann og hvað það nú allt heitir. Og listasöfnin. Það er stöðug veisla. Stöðug veisla með krás.
Framhald frá í gær: „Við urðum þreytt og skildum að við mundum aldrei skoða nema lítinn hluta í einni heimsókn í safnið. Vorum því í þann veginn að hætta og fara út, þegar við okkur blasti mynd af Guðspjallamönnunum fjórum eftir Jordaens. Við áttum mynd af málverki þessu í bók heima og höfðum oft talað um að gaman væri að heimsækja það og nú blasti það við okkur. Frummyndin sjálf. Það var áhrifaríkt.
Ásta vakti svo athygli mína á stóru málverki sem hékk við hlið lærisveinanna. Málverkið var af Pétri postula, öldruðum. Allir þekkja Pétur postula sem er væntanlega frægastur fyrir hanann, þann sem gól eftir forspá við þriðju afneitun Péturs á sambandi sínu við Jesú frá Nasaret. Rifjum upp hina átakanlegu atburði. Litli hópurinn er á leið til Getsemanegarðs. Meistarinn Jesús og lærisveinar hans. Átakatími er framundan. Jesús er á leið til sinnar mestu áreynslu. Bænastundarinnar fyrir aftökuna. Hann segir við lærisveinana:
„Þér munuð allir hneykslast á mér á þessari nóttu…” …en Pétur svaraði og sagði við hann: „Þótt allir hneykslist á þér, skal ég þó aldrei hneykslast.” Jesús sagði við hann: „Sannlega segi ég þér, á þessari nóttu, áður en haninn galar, muntu þrisvar afneita mér.” Pétur segir við hann: „Og þótt ég ætti að deyja með þér, mun ég alls eigi afneita þér.” Á líkan hátt mæltu og allir lærisveinarnir.””
Eftir Júdasarbragðið, þegar hermenn höfðu tekið Jesúm fastan og leitt hann fyrir ráðið, æðsta prestinn og fræðimennina og öldungana, sem allir hötuðu hann af óskiptu hjarta og notuðu nú tækifærið til að svala hatri sínu með því að hrækja í andlit honum, slá hann með hnefum og berja hann með stöfum, segir svo:
„En Pétur sat fyrir utan í hallargarðinum. Og þerna ein kom til hans og mælti: „Þú varst einnig með Jesú frá Galíleu.” En hann neitaði því í áheyrn allra og sagði: „Ég veit ekki hvað þú átt við.” En er hann var kominn út í fordyrið, sá önnur hann og sagði við þá er þar voru: „Þessi maður var líka með Jesú frá Nasaret.” Og aftur neitaði hann því með eiði. „Ekki þekki ég manninn.” En litlu síðar komu þeir að, er þar stóðu, og sögðu við Pétur: „Víst ert þú líka einn af þeim, því að og málfæri þitt segir til þín.” Þá tók hann að formæla sér og sverja: „Ekki þekkti ég manninn.” Og jafnskjótt gól haninn. Og Pétur minntist þess sem Jesús hafði sagt og hann gekk út fyrir og grét beisklega.””
Öll þessi orð, okkur svo kunnug, fóru í gegnum hugann þar sem við sátum og horfðum á myndina. Hún er máluð í dökkum litum, öldungurinn grár fyrir hærum. Ofan við hægri öxl hans er hani, reigður stór hani, sem greinilega átti að tákna huga Péturs og hugsun, iðrun og kvöl yfir daprasta degi lífs síns. Hani sem gól aftur og aftur, allt líf hans út í gegn og minnti á fallið. Við sátum djúpt hugsi, gripin af hugsuninni um Pétur. Hugsun málarans sem tjáði á striganum það sem enginn hafði komið orðum að. Síendurtekin sársauka og sjálfsásökun.
Við fórum út og gengum rólega af stað í átt að hótelinu. Eftir alllanga göngu og jafnlanga þögn sagði Ásta: „Hugsaðu um það pabbi, bergmálið hefur fylgt honum alla ævina.””