Ekki trúi ég því að úrslit kosninga yrðu neitt í líkingu við skoðanakannanir dagsins. Fremur held ég að uppsveifla VG stafi af þörf fólks til að sýna andúð á Sjálfstæðisflokknum. Þá held ég að Samfylkingin skori hátt vegna Jóhönnu Sigurðardóttur sem ein virðist alltaf muna eftir þeim sem erfiðast eiga í baráttunni við að komast af. Hún sker sig úr.
Ef fólk fengi tækifæri til að kjósa á næsta ári, sem um það bil engar líkur eru á, þá rynnu ýmsar grímur á kjósendur þegar í kjörklefana væri komið. Sem vonlegt er. Liðið sem foringjarnir hafa safnað í kringum sig virðist ekki hafa bein í nefinu neinum til gagns, nema foringjunum og eigin meltu.
Það væri aftur á móti áhugavert ef trúverðugt alvörufólk, sem hlýtur að finnast í þjóðinni og heyrir væntanlega til hinum svokallaða þögla meirihluta hennar, gengi fram fyrir skjöldu og myndaði nýjan flokk sem byggði á markmiðum og þörfum allrar þjóðarinnar. Trompetarnir sem hæst lætur í á laugardögum vekja ekki áhugaverðar vonir.
Ánægjulegt var að heyra tillögur hagfræðinganna Jóns og Gylfa um að búa þyrfti til nýtt kerfi til að bjarga einstaklingum og fyrirtækjum, kerfi þar sem öllum væri mætt jafnt. Kerfi sem mótað væri fyrirfram og stjórnmálamenn og embættismenn gætu ekki potað í, hverjir fengu aðstoð og hverjir ekki. Það hljómaði vel eins og flest sem þeir sögðu.
En af því að Stefán nefndi Björk sem hið flotta dæmi – hvort greiðir hún opinber gjöld í Englandi eða á Íslandi?