COGITO OG VERKAMAÐURINN


Það hefði verið ánægjulegt að fá að sitja í tíma hjá Cogito manninnum René Descartes og hlusta á hann tala. Eftir minnimáttartilfinninguna hefði svo verið hægt að, í huganum að minnsta kosti, læða að honum einni og einni barnalegri spurningu um Hugleiðingarnar.

Descartes er nokkuð dökkur á myndinni sem ég hef af honum og ábúðarmikill. Ekki veit ég hvort hann er lágvaxinn eða hávaxinn en andlitið á honum á myndinni eykur ekki vesalings verkamanni kjark til að spyrja væri hann í kennslustofunni. En það er ánægjulegt að lesa og hugleiða Hugleiðingar hans. Verulega.

Þorsteinn Gylfason skrifar langan inngang að lærdómsritinu. Þar rak ég tærnar oft í. Aftur og aftur er ég honum ósammála. Þrátt fyrir hans miklu heimspekiþekkingu, sem ég dáist að, hagga skoðanir hans ekki mínum niðurstöðum um lífið og trúna á Guð og Orðið sem varð hold. Ég held nefnilega að sjálfin Þorsteins hindri hann eins og svo margt fólk sem fjallar um trúmál. Sjálfin þeirra segja gjarnan hingað og ekki lengra.

En lengra þarf að fara. Og vegurinn þangað er mjór og fáir þeir sem finna hann. Því miður. En frelsarinn sagði einmitt: Ég er vegurinn. Við gætum spurt og ættum að spyrja: Hvaða Ég? Það er einn af leyndardómunum. Er ekki svo? Í upphafi var Orðið, segir . Margir kannast við það. Liggur þá ekki beint við að hugsa sér að Orðið sé vegurinn. Orðið sem varð hold, Jesús. Og margir hnjóta um það.

Mikið vildi ég að fleiri finndu veginn þann. Að hugsun og hugleiðingar fleiri næðu að tileinka sér auðmýkt og lítillæti og opnuðu með því veginn til þess guðsríkis sem býr innra með hverjum einasta manni. Þá væri minna um morð í Úkraínu og þjófnaði á bönkum.

Þetta segir vikusálin mín í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.