Það var fyrir liðlega þrjátíu árum. Ég var þá framkvæmdastjóri Bókaforlags Fíladelfíu um hríð. Forlagið hafði aðstöðu í Fíladelfíukirkjunni í Hátúni 2 í Reykjavík. Var vinnustaður minn þar. Kirkjan, og ekki síður skrifstofurnar, voru einskonar miðja hvítasunnuhreyfingarinnar á landinu og þar komu margir við. Voru það jafnt Reykvíkingar sem og safnaðarfólk utan af landi.
Hitti ég því og kynntist svo til öllum íslenskum hvítasunnumönnum þess tíma. Nokkrir eru mér minnisstæðari en aðrir og þeir skýrastir í huga mínum sem hógværð og auðmýkt prýddu öðrum fremur. Einn þeirra sem ógleymanlegur er er Ólafur Guðmundsson frá Bakkafirði. Hann lést 7. febrúar s.l. Í Morgunblaðinu í gær er tilkynning frá fjölskyldu hans um að útför hans hafi farið fram í kyrrþey að hans ósk.
Á þeim árum, þegar ég starfaði í forlaginu, kom Ólafur í sína fyrstu heimsókn í kirkjuna í Hátúni 2. Það kom í minn hlut að taka á móti honum. Þetta var skömmu fyrir hádegi. Ég hafði aldrei hitt manninn áður, aðeins heyrt af honum.Upplifði ég þarna einstaka hlýju og kærleika þegar hann heilsaði mér. Hann faðmaði mig innilega og sagði bróðir kær og talaði um Drottin eins og sameiginlegan hjúp okkar beggja.
Hann spurði hvort ég vildi sýna honum salinn, sem þá var neðri salur kirkjunnar. Það var auðsótt. Opnaði ég dyr salarins og bauð honum að ganga inn á undan mér. Þegar hann var kominn svo sem skref inn fyrir dyrnar tók hann húfuna ofan og andvarpaði. „Drottinn minn og Guð minn.“ Síðan fór hann að bekkjaröð og kraup á hnén og hneigði sig og fór með bæn. Ég var svo gripinn af framkomu mannsins og fágætum anda að ég kraup við hlið hans og bað með honum. Að bæninni lokinni faðmaði hann mig og sagði með tár í augum. „Mikill er Drottinn.“
Þessi stund og þessi framkoma, heilög stund öðrum ólík, er stöðugt skýr og lifandi í huga mínum sem hin fullkomna mynd af einlægum vini Krists.
Blessa ég minningu þessa auðmjúka manns.
All react