STERKUR KRYDDILMUR Í LOFTINU

Leigubíllinn hafði bara ekið með okkur tvær þrjár mínútur þegar hann stoppaði og tók unga konu upp í. Ég skildi ekkert hvað bílstjórinn sagði. Hann ók konunni að húsi við hliðargötu í bænum. Litlu síðar stoppaði hann aftur og fór inn í hús. Við biðum í bílnum. Þegar hann kom til baka skildist mér á honum að hann hefði farið í kaffi. Eftir það ók hann svo upp fjallið og að klaustrinu þar sem við borguðum og hann fór til baka.

En klaustrið var lokað almenningi þennan dag sem var fótaþvottadagur hjá hinum trúuðu. Við tókum lífinu með ró og skimuðum um hálfa veröldina. Sjórinn sléttur og silfraður eins og augað eygði og sólin yfir okkur og hvergi skýhnoðra að sjá. Og sterkur kryddilmur í loftinu. Ógleymanlegur ilmur. Á göngu okkar til baka niður fjallið umvafði þessi magnaði kryddilmur tilveruna og við teyguðum hann í okkur. Hrifin.

Annað sem vakti undrun okkar á leiðinni niður fjallið voru maurarnir á malarveginum. Hundruð af þeim hömuðust við flutning á laufblöðum, stráum og ýmiskonar varningi. Þeir fóru í röð, skipulagðir, og á fullri ferð. Önnur fylkingin með varninginn á niðurleið að einhverri holu við steinhnullug og hin fylkingin tómhent til baka. Allir að flýta sér og í skipulegum fylkingum. Við fylgdumst með þeim dágóða stund. Heilluð af vinnugleði þeirra.

Þegar við vorum komin hálfa leið niður af fjallinu komum við auga á hellinn þar sem sagt er að Jóhannes guðspjallamaður hafi skrifað sín bréf. Fyllt heilagri lotningu litum við þar inn.

Þessi heimsókn okkar til Patmos um árið rifjast alltaf upp þegar kemur að Jóhannesarbréfunum í okkar daglega lestri. Og frú Ásta lygnir augunum og segir: „Manstu eftir ilminum. Hann er ógleymanlegur.“ Og við endurlifum ævintýrið á Patmos og ræðum það í dágóða stund, þakklát.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.