HVAÐ ER HEIM?

Vinur minn á Fésinu, Jónatan Hermannsson, skrifar fallega og tregablandna hugleiðingu á síðu sína í morgun. Í framhaldi af henni rifjaðist upp fyrir mér atvik í Lyfjaveri í síðustu viku. Við vorum þarna nokkrir gamlir karlar og líklega tvær konur á miðjum aldri.

Einn karlinn var einfættur, feitur með stóra kúlu á maganum og gekk við hækjur. Hann var lengi að koma til skilnings á því sem lyfjatæknirinn hafði við hann að segja. Honum lét hátt rómur.
Við afgreiðslu skammt frá var annar gamall karl. Hann var klæddur í sauðalitina og honum lét einnig hátt rómur. Ekki var komist hjá því að heyra hvað karlarnir ræddu við lyfjatæknana. Þar kom þó að þeir luku erindum sínum. Það var á sama tíma. Sá á hækjunum snéri sér í átt að dyrum en sauðalita karlinn kom þá auga á hann og hrópaði á ,,elsku vin sinn“. Urðu þarna miklir og háværir
endurfundir.

„Það er orðið langt síðan lagsmaður minn.“
„Já, heldur betur.“
„Og ósköp er að sjá þig á tveim hækjum.“
„Já, en þú ert nú brattur að sjá.“
„Það er ekkert að marka það. Það er bara láréttan eftir.“

Nú var nafnið mitt kallað upp. Karlarnir höfðu fundið sér sæti og ræddu þessi lifandis býsn, ákafir og skelltu upp úr á milli. Því miður missti ég af því en fór smitaður af gleði þeirra og kaldhæðni út í meitt eigið haust.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.