Hlöðutún og bleyjur á bökkum Norðurár

„Hef ég nefnt það hversu þakklát ég er fyrir að hafa alist upp í þessari blessuðu sveit?“

Þannig endaði innslag Þorgerðar Ólafsdóttur frá Sámsstöðum í Hvítársíðu á Fésinu í vikunni.
Og ég, hrifinn af setningunni las hana aftur og nú upphátt fyrir frú Ástu.

Þorgerður er frænka Ástu, báðar ættaðar frá Hlöðutúni í Stafholtstungum. Og í framhaldi af þessum orðum Þorgerðar hófst svo notalegt samtal okkar gömlu hjónanna. Ásta vísaði til þess að Þorgerður, þessi unga kona, væri lík ömmu sinni Þorgerði Árnadóttur af Ströndum, sem giftist föðurbróður Ástu, Guðmundi Brynjólfssyni bónda í Hlöðutúni og bjó þar til dauðadags.

Ásta tók að rifja upp löngu liðna tíð frá Hlöðutúni. Með blíðum svip minntist hún afa síns Brynjólfs Guðbrandssonar bónda þar. Hún sagði: „Mér eru sérlega minnisstæðir sunnudags morgnarnir. Að loknum mjöltum og litla skatti skiptu allir heimilismenn um föt. Fóru í spariföt og komu saman í stofunni. Þar spilaði afi á orgel og það myndaðist hátíðleg stemning. Rétt eins og við værum í kirkju. Afar virðuleg og umlykjandi samvera.“

Og Ásta hélt áfram: „Við Þorgerður eldri áttum nokkuð saman að sælda. Ég var eitt sinn í tvær eða þrjár vikur í Hlöðutúni. Það var fyrri hluta sumars. Við vorum báðar með kornunga syni okkar. Náðum vel saman og á milli okkar myndaðist vinátta og trúnaðarsamband. Og við ræddum hin ýmsu tilbrigði tilverunnar. Gleði og sorgir.

Upp í hugann kemur atvik. Það var þegar við fórum tvær með bleyjurnar af strákunum okkar niður að á til að þvo þær. Áin, Norðurá, var spegilslétt. Það var logn og himininn heiður. Fáeinar álftir sigldi í makindum, hvítar og virðulegar, niður undir brú. Sterkbyggðir laxar lyftu nefi og fengu sér flugusteik á leið sinni upp í gamalkunna hylji árinnar. Og við Þorgerður eldri mösuðum, frjálsar og óháðar utan ástarsambandsins við drengina okkar sem sváfu á bakkanum innan um hrossanálar og elftingu. Við mösuðum í trúnaði um væntingar og vonir. Og vonbrigði.

Amma mín, Jónína Jónsdóttir, hafði sagt okkur að breiða bleyjurnar á grasið og láta hlýja sumargoluna þurrka þær. Þá fengjum við þær hvítar og ferskar. Hlöðutúnsheimilið var fullt af umvefjandi væntumþykju allra heimilismanna, og var Ingibjörg föðursystir mín, jafnan kölluð Imba í Hlöðutúni, ein af þeim. Ég upplifi alltaf hlýju innra með mér þegar ég rifja upp tímana sem ég átti með þessu elskuríka fólki,“ sagði frú Ásta að lokum.

Þetta var í gærmorgun, 28. september.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.