Við gengum niður eftir strætinu. Komum að lítilli auglýsingu í glerskáp. Það var jam session. Við litum inn af rælni. Fremur lítill salur. Talsvert af fólki og hljómsveit að koma sér fyrir á palli. Meðlimir hljómsveitarinnar í sínum daglegu jakkafötum, fólk um fertugt, fimmtugt, hversdagslegt og tilgerðarlaust. Þau stilltu hljóðfærin. Stemningin vafðist um okkur og við tókum sæti. Setið var við flest borð. Sumir, heimamenn, nikkuðu til okkar. Meðalaldur yfir fimmtugu. Kannski voru allir heimamenn.