Í sjónvarpsfréttum í gær var sagt frá því og sýnt hvernig verið er að breyta kvennaskólanum í Varmalandi í Borgarfirði í hótel. Rifjaðist þá upp fyrir mér vorið 1948. Ég var ellefu ára sumarstrákur á Svarfhóli í Stafholtstungum. Þetta var fyrsta sumarið sem ég var fjarri fjölskyldu og vinum. Hafði á sumrum verið í hlýju umhverfi afa og ömmu á Kirkjulæk í Fljótshlíð og móðursystur minnar Ingileifu í Kollabæ í sömu sveit.
Ekki var nein hetjulund vöknuð í mér þetta vor fremur en á öðrum skeiðum lífs míns og margir dagar, þó fremur kvöldin, sem barist var við söknuð. Ljósir punktar voru þó í þessari útlegð og skipti miklu vinsemd Rabba, nítján ára pilts úr Reykjavík sem var í heimili á Svarfhóli. Garðar Rafn Ásgeirsson hét hann og varð síðar bóndi á Svarfhóli.
Svarfhólsbændur sáu kvennaskólanum í Varmalandi fyrir mjólk og var henni ekið þangað annan hvern dag. Þann flutning annaðist Rabbi, en hann einn heimilismanna hafði bílpróf og var því sá eini sem ók nýlegum Willis jeppa býlisins. Fékk ég stundum að fara með í mjólkurferðirnar. Vegir voru fátæklegir á þessum árum, meira og minna niður grafnir og mótaðir af lítilli umferð.
Eini vegurinn að Varmalandi frá þjóðveginum á þessum tíma var um hlaðið á Stafholtsveggjum og yfir hálsinn að skólanum. Í vorleysingunum var mikið um aurbleytu á milli klettaborganna og talsverð list að komast leiðar sinnar á bíl. Naut ég þess að fylgjast með Rabba lempa bílinn niður brekkuna skóla megin en þar var erfiðasti og blautasti kaflinn. Lifði ég mig inn í gírskiptingar og tilburði Rabba og horfði á hann með mikilli aðdáun.
Svo þegar að skólanum kom afhenti Rabbi mjólkurbrúsana. Mér var skipað að bíða úti í bíl. Það var ekkert sérstaklega skemmtilegt. Nokkrar ungar og lífsglaðar skólameyjar komu blaðskellandi og tóku á móti mjólkinni. Fór vel á með stúlkunum og Rafni og greinilegt að öll þekktust þau vel. Eftir nokkra stund sá ég hvar Rafn klifraði upp eftir niðurfallsrennu á horni hússins og furðaði ég mig á því þegar ég sá hann hverfa inn um glugga.
Á heimleiðinni spurði ég hann af hverju hann hefði klifrað inn um gluggann. Hann varð sposkur á svipinn og sagði það vera leyndarmál sem aldrei mætti segja frá. Og þar með var það útrætt.
Dásamlegt! Meira af svona leyndarmálum.