Minning: Ásta Ólafsdóttir

Ásta Ólafsdóttir, föðursystir mín, er fallin frá. Hún var kvödd frá Bústaðakirkju 23. maí. Þar með hefur allur systkinahópurinn, sjö börn Hreiðarsínu Hreiðarsdóttur og Ólafs Þorleifssonar, sem lengst af bjuggu á Grettisgötu 61, kvatt þetta tilverustig.

Það vekur trega þegar hugsað er til þess að stór systkinahópur, náin skyldmenni, er horfinn af sviðinu. Fólk sem var eins og gróður, skjólgarður í grennd á æskudögum. Sumir nær, aðrir fjær. Og maður fer yfir kynnin í huganum, rifjar upp vinafundi og atburði sem ollu vinslitum.

Því miður voru fjölskyldutengsl okkar of skammvinn. Það helgaðist af skilnaði foreldra minna árið 1953. Á þeim árum voru hjónaskilnaðir ekki eins algengir og auðveldir og nú tíðkast. Var konum oft gert erfitt fyrir þegar þær vildu losna úr erfiðri stöðu. Kostuðu slíkar ákvarðanir því gjarnan reiði og ásökun í hópi aðstandenda beggja aðila og skildu eftir sár sem seint eða aldrei gréru.

Minningar mínar um Ástu eru allar hlýjar. Þau hjónin, hún og Óskar, heimsóttu foreldra mína ásamt tveim elstu dætrunum, Margréti og Sigurbjörgu. Stærri var fjölskyldan ekki orðin þá. Og mín fjölskylda heimsótti þau. Minnist ég boða á hátíðisdögum og afmælum í Norðurmýri, í Laugarnesi og loks í Hólmgarði þar sem Ásta bjó fram á síðasta dag, 96 ára gömul.

Í þau fáu skipti sem við hittumst eftir aðskilnað fjölskyldnanna, sem helst var á förnum vegi, fór alltaf vel á með okkur. Hún auðsýndi hlýju og vinsemd sem yljaði og auðveldaði samtölin. Því miður hafði ég ekki dug til að tengjast fjölskyldu hennar og sakna ég þess. Geri mér ljóst að þar hef ég farið á mis við verðmæti sem felast í samskiptum við gott fólk, góð ættmenni og góða fjölskyldu.

Þessi fátæklegu orð mín eru ætluð til minnast góðrar frænku. Vil ég og votta öllum afkomendum Ástu Ólafsdóttur einlæga samúð við fráfall móður, ömmu og langömmu þeirra og óska þeim alls hins besta. Minningin um góða frænku lifir.

Óli Ágústsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.