Dagurinn í dag, góður fyrir gróðurinn og góður fyrir gamlan karl sem ekki hefur átt almennilega heimangengt í hálft ár eða meira. Enda brugðum við hjónin undir okkur betri dekkjunum og skruppum í Holuborg um hádegisbil. Það var ánægjuleg ferð.
Frú Ásta ók, eins og hún hefur gert upp á síðkastið. Þegar síðasta erindi okkar lauk, bauð Ásta í kaffisopa í nærliggjandi kaffihús. Cafemeski heitir það og er í Skeifunni. Þar er stór salur, fremur kuldalegur og glymjandi. Níu gestir sátu dreift. Tveir við eitt borð, þrír við tvö önnur, einn á kafi í tölvunni sinni og svo konurnar tvær.
Við Ásta fengum okkar kaffibolla og sína súkkulaðibitakökuna hvort. Þær voru harðar. Konurnar tvær drógu að sér athygli. Þær sátu Í einu horni salarins, austast, og töluðu ákaflega. Og fullum hálsi. Þær voru á að giska milli þrítugs og fertugs, þybbnar og sátu í úlpunum. Önnur var sínu háværari og mátti heyra það sem hún sagði á milli þess sem hún jós upp í sig súpu úr skál og beit í stóra samloku. Og allt í einu komu feitu kvensurnar hans Maughams upp í hugann. Ljóslifandi.
W. Somerset Maugham varð einn af mínum uppáhalds rithöfundum á yngri árum. Sögur eins og Tunglið og tíeyringurinn og Regn hafa eiginlega fylgt mér í undirmeðvitundinni stóran hluta ævinnar. Og svo auðvitað þessar 65 smásögur eftir hann sem ég á í einni bók og heitir ein þeirra einmitt The Three Fat Women of Antibes. Ég nefni feitu kvensurnar því mér fannst þær vera komnar þarna: ,,Ein var kölluð frú Richman og hún var ekkja. Önnur var kölluð frú Sutcliffe; hún var amerísk og hafði skilið við tvo eiginmenn. Sú þriðja var kölluð ungfrú Hickson og hún var piparjómfrú. Þær voru allar komnar töluvert á fertugsaldurinn og allar fremur efnaðar.“
Og seinna segir: ,,Þær voru alveg perluvinir, hún ungfrú Hickson, frú Richman og Arrow Sutcliffe. Það var fita þeirra allra, sem hafði komið því til leiðar að þær hittust og kynntust….“
Þú þarft örugglega ekki að óttast heilabilun kæri Óli. Þvílíkt minni á það sem þú hefur lesið. Takk fyrir og góð kveðja.