Alltaf hef ég haft ánægju af að fara í búsáhaldabúð. Man fyrst eftir ferð með mömmu minni. Þá hef ég líklega verið 8 ára gamall. Verslunin var uppi á Laugavegi nokkurn veginn á móti Sandholtsbakaríi. Það var farið upp tvær eða þrjár tröppur. Mamma ætlaði að kaupa matardiska fyrir sex.
Hún ræddi við mig munstrin eins og ég væri fullgildur og spurði mig álits. Mig minnir að ég hafi mælt með munstrinu sem henni leist best á. Það var ekki oft sem farið var í svona búðir á þeim árum. Efnahagur heimilisins oft bágur.
Nú fórum við Ásta nýlega í búsáhaldabúð. Tilefnið var að endurnýja tvo kaffibolla sem við höfum við Horngluggann og drekkum morgunkaffið úr. Þetta var í tilefni konudagsins sem er þó ekki fyrr en á morgun. Þarna sáum við ákaflega fallega hluti. Gengum um þögul og skoðuðum. Fórum tvo hringi um deildina. Snertum sumt, voguðum ekki að snerta annað. Ég varð dálítið ölvaður. Er með dellu í svona málum. Reikna með að það sé kvenlegi þátturinn í mér. Hann á til að brjótast til valda.
Svo kom afgreiðslukona til okkar. Hún byrjaði að tala. Og talaði og talaði. Leiddi okkur tvær umferðir um deildina. Sagði sem svo: „Svo erum við með þetta merki hérna, bollar og þessar rosalega flottu súpuskálar, hugsið ykkur, með franska lauksúpu í og grófa brauðbollu sem maður getur lagt ofan á.“ Og hún tók súpuskálina og lék að í henni væri súpa og andaði upp í nefið. „Hugsið ykkur,“ bætti hún við „eða rauða tómatsúpu og mylja osti yfir hana. Hvað gæti verið betra í apríl en heit tómatsúpa?“
„Apríl er grimmastur mánaða,“ skaut ég að.
,,Mér finnst gott að eiga afmæli í apríl,“ sagði afgreiðslukonan.
,,Hann er grimmastur mánaða,“ endurtók ég.
„Dóttir mín fékk svona skál og stútaði henni,“ bætti konan við, „en auðvitað koma oft hret í apríl,“ sagði hún og lagði skálina upp í hillu.
„Ég er að tala um T.S. Eliot,“ sagði ég og hallaði mér að konunni. „T.S. Eliot,“ endurtók ég.
Þá leit hún upp til mín og sagði með sínum fallega máluðu vörum:
„Það hef ég aldrei heyrt, er það þekkt merki?“
Þær gerast nú varla skemmtilegri búðarferðirnar, en til að líta á eldhúsdót. Þetta eru mína bestu verslunar stundir. Og maður minn, kaninn kann þetta upp á tíu og geng ég í leiðslu um húsakynni eldhúsdóta þegar ég kemst til þess. Addý mín og Kristjana gefa mér gjarnan rifjárn eða annað sem þær eru sjálfar hrifnar að, í afmælisgjöf. Þær þekkja mitt áhugasvið þar sem þær eru haldnar sömu áráttu. Þetta er eflaust í genunum og sennilega í litningi 16 Takk fyrir góða sögu og kær kveðja.