Sólin hafði brotist fram úr skýjunum. Það var opið út á svalirnar til að fanga nokkra rúmmetra af tærum andvaranum. Þá komu sjö álftir fljúgandi. Komu úr vestri og hvinur vængjanna heyrðist þegar þær fóru hjá. Stórar, hvítar og heillandi. Sjö saman. Komu úr vestri.
Ég kallaði til þeirra hvort þær hefðu heyrt það nýjasta. Ein þeirra svaraði. Hún var fremst. Svo að ég fór út á svalirnar til að fylgjast með þeim. Þær beygðu og flugu hring umhverfis blokkina og komu svo aftur úr vestri. Mun nær svölunum. Og litu til mín. ,,Það er talað um að gefa skotleyfi á ykkur,“ sagði ég. Þrjár þeirra litu í áttina til mín og svöruðu. Ég skildi ekki hvað þær sögðu og kallaði: ,,Ég skil ekki.“
Þær fóru nú annan hring kringum blokkina. Í þriðju ferðinni skildu tvær sig frá hinum og í þetta sinn og flugu þær fast upp við svalirnar. Þetta eru stórir fuglar, tignarlegir og heillandi. Að minnsta kosti í fjarlægð. Allt í einu hlömmuðu þær sér inn á svalirnar hjá mér. Það var mikill bægslagangur því yfirleitt þurfa þær langa flugbraut. Og þessar tvær fylltu svalirnar. Í orðsins fyllstu merkingu. Vængir þeirra voru út um allt og þær teygðu hálsana sem náðu upp undir svalirnar fyrir ofan. Og görguðu viðstöðulaust.
Ég hrökklaðist inn í íbúðina því það var eiginlega ekkert rúm fyrir mig úti. Og fylgdist með þeim. Þær fluttu þarna þessar feikna ræður. Vafalítið varnarræður já, eða þá skammarræður.
Á þessu gekk um hríð. Loks lyfti önnur sér upp á lítið borð, borð sem við Ásta tyllum kaffibollunum okkar á þegar viðrar, og lét sig falla fram af svölunum. Hin fylgdi á eftir. Og þær hurfu í norður átt.
Á borðinu höfðu þær báðar skilið eftir litskrúðuga hrúgu, væntanlega sem tákn um viðhorf þeirra til málaflokksins.
Góður að venju.
Góður þessi.
Skemmtileg frásögn.