Það var árið 1969. Ég fór í fornbókabúð. Hún var neðarlega á Skólavörðustíg. Líklega Bókin. Keypti gjarnan sjö átta bækur og tók með mér heim. Við bjuggum þá á Selfossi. Í þessari ferð eignaðist ég Játningar Ágústínusar útg. 1962, þýdd af Sigurbirni Einarssyni. Hún varð strax mikil uppáhaldsbók. Greip í hana á hverju ári.
Næstu árin keypti ég nokkur eintök og gaf trúuðum vinum mínum og hvatti þá til að lesa hana. Svo hætti hún að fást. Nú nefni ég þetta í framhaldi af því að í síðustu viku var mér lánað hefti HUGAR, 26/ 2014, tímarit um heimspeki. Í heftinu er sagt frá merkismanninum Gunnari Ragnarssyni heimspekingi, kennara og afkastamiklum þýðanda.
Komst ég að því að ýmsar þeirra bóka sem hann hafði þýtt átti ég og þeirra á meðal viðtalsbók Bryans Magee, heimspekings og sjónvarpsmanns: Miklir heimspekingar, inngangur að vestrænni heimspeki, útg. 2002. Frábær bók og fræðandi. Við þessi bókatengsl síðustu daga rifjaðist upp fyrir mér setning úr bók Magee´s, þar sem hann ræðir í sjónvarpi við Anthony Kenny um heimspeki miðalda.
,,Magee: Ef umræða okkar hefur þau áhrif, eins og ég vona að hún geri, að hvetja einhverja til að lesa texta í miðaldaheimspeki í fyrsta sinn, hvar mundirði ráðleggja þeim að byrja?
Kenny: Það eru ekki mörg miðaldaverk sem eru auðveld fyrir byrjendur. Ástæðan er sú, eins og ég sagði, að flest hinna miklu verka í miðaldaheimspeki voru skrifuð innan háskólahefðar. Þau eru afar fræðilegar háskólakennslubækur. En það eru þó til tvær stuttar bækur sem hægt væri að velja sér. Hin fyrri er sú sem þú sjálfur nefndir fyrst, Játningar Ágústínuar.
Magee: Það er, finnst mér, sannarlega dásamleg bók.“