Fáein kveðjuorð. Og þakkar. Fallinn er frá öðlingurinn og tónlistarmaðurinn Árni Arinbjarnarson. Fyrir fimmtíu árum kynntumst við á sumarmóti Hvítasunnumanna í Kirkjulækjarkoti. Hann stjórnaði söng og lék undir. Það voru gleðistundir.
Kór Fíladelfíu stjórnaði hann um langt árabil. Fíladelfía, kórinn og Árni voru samangróin í þeirri merkingu að tónlistin og fagnandi söngurinn voru þar fastir liðir í áratugi. Nákvæmur, tónelskur og hvetjandi var hann þar alltaf.
Í samkomum á bestu dögunum, þegar andi Guðs fyllti hjörtu kórfélaganna var eins og himnarnir opnuðust . Himnarnir opnuðust. Þannig upplifði ég það þegar sunginn var hinn sígildi sálmur: ,,Þú mikli Guð sem manninn elskað hefur,“ eða ,,How Great Thou Art“ eins og hann heitir á frummálinu og er sunginn í kirkjum um víða veröld. Þú mikli Guð og ásamt öllum hinum sígildu sálmum Hvítasunnumanna fyllti hljómurinn Fíladelfíukirkjuna og sál og anda safnaðarins og það var undursamlegt að hlýða á og vera til og syngja með og fara heim með hjartað fullt af blessun. Blessun.
Eitt sinn kom að Árni að máli við mig. Hann var með nótnablað í hendinni. Hann spurði ljúflega hvort ég væri til í að skoða textann og þýða hann. Svo lék hann lagið á flygilinn. Þetta var í neðri sal kirkjunnar. Lagið var ,,He Touched Me,“ eftir Gaither. Lag og texti sem nutu feikilegra vinsælda meðal kristinna manna um víða veröld. Ég íslenskaði textann og Árni tók hann strax til æfinga. Þetta var upphaf að samstarfi okkar um trúarlega texta um árabil.
Síðar, þegar við Ásta tókum við forstöðu Samhjálpar Hvítasunnumanna kom upp sú hugmynd að gefa út á hljómplötu afurð af samstarfi okkar Árna. Starfinu til styrktar. Var þá komið að mér að spyrja Árna hvort hann vildi leggja Samhjálp lið með gerð hljómplötu. Hann tók vel í það og var það upphaf vináttu hans við Samhjálp. Ómetanlegrar vináttu. Hófst nú undirbúningur og síðan upptaka og fyrsta hljómplata Samhjálpar varð til. Seldist hún í stóru upplagi og varð mikil lyftistöng fyrir Samhjálparstarfið. Vinátta Árna við Samhjálp Hvítasunnumanna var einlæg og traust allan starfstíma okkar Ástu þar.
Í dag kveðjum við Árna Arinbjarnarson. Einstakan mann, einstakan öðling. Við kveðjum hann með hugann fullan af þakklæti og einlægri virðingu. Lýdíu Haraldsdóttur konu hans og börnum þeirra, Arinbirni, Pálínu og Margréti og fjölskyldum vottum við samúð og hluttekningu.
Óli Ágústsson, Ásta Jónsdóttir.