Klukkan liðlega níu í morgun fór ég út úr húsi og hlýr andvari hjalaði við andlitið á mér. Það var afar hljótt og ég heyrði smáa regndropa hvísla við jörðina og þá dró ég andann djúpt og hélt honum niðrí mér.
Þetta var hamingjustund og endurminningar úr sveitinni þegar við sumarkrakkarnir vorum að bardúsa við vorverkin og regnið var volgt og sytraði af hárinu niður í hálsmálið og það var svo gott að vera til og Ásta var í hópnum og mér fannst hún fyndnust og ég horfði mest á andlitið á henni og þegar hún hló þá fór rafmagn um mig allan, frá hvirflinum og niður í tær.
Svona verkaði vorblíðan á mig í morgun og svo fór ég með gamla bílinn minn í skoðun og hún var athugasemdalaus og það er alltaf dálítill sigur. Svo sat ég í bílnum dágóða stund á bílastæðinu við blokkina og stoppaði rúðuþurrkurnar og horfði á regnið safnast á framrúðuna og kristalla þessa sextíu ára gömlu mynd sem ég yljaði mér við.