Fyrr í þessum mánuði tók fólk upp á því á ,,fésinu“ að hvetja vini til að nefna 10 bækur sem væru þeim kærastar eða hefðu haft mest áhrif á það á lesferli þess. Ég ætlaði að taka þátt í þessu og nefna á hraðbergi þær tíu sem ættu efstan sess í mínum huga. En þetta reyndist ekki einfalt. Og ég guggnaði.
En hugmyndin hefir áreitt mig. Eru einhverjar tíu bækur mér efst í huga og mér kærastar, einhverjar sem hafa haft áhrif á mig öðrum fremur? Og sem ég lét hugann leita til baka, – það var einskonar ævintýri – þá endurlifði ég ilm þeirra bóka sem mesta ánægju veittu og áhrif höfðu. Kom fyrst í hug Borgarvirki eftir A.J. Cronin. Ég var tíu eða ellefu ára. Njálssaga fáum árum seinna og aðrar Íslendingasögur. Og ljóðskáldin íslensku. Þau umvöfðu mig.
Nú finnst mér erfiðara að nefna einstaka bækur. Kysi fremur að nefna höfunda. Þeir eru margir mér afar kærir og bækur þeirra. Og nokkrir bera af. Ekki mjög margir. Það er þetta með orðin úr hjartastað eins og Magnús Ásgeirsson orðar það svo snilldarlega í þýðingu sinni á brotum úr Fást eftir Goethe: „En hjörtum fer aldrei orð á milli, sem ekki er runnið úr hjartastað.“
Og það var einmitt í morgunlestri dagsins sem þessi hugsun kom til okkar eitt skiptið enn, hvar Jesús Kristur spjallar við lærisveina sína og brýnir fyrir þeim að skilja þurfi hina ýmsu leyndardóma lífsins með hjartanu. Og þess vegna er Biblían í huga mínum bók bókanna, því að, eins og brúðurin orti: „Yndislegur ilmur er af smyrslum þínum,…“