Þegar ég kom að blokkinni sem ég bý í, einn daginn í vikunni, upplifði ég afar sérkennilegan atburð. Það hagar þannig til að í blokkinni sem er átta hæða eru tvær lyftur. Önnur er nokkuð stór og í henni flytur fólk húsgögn. Hin er minni og er fremur fyrir fólk. Sem ég kom þarna að var einn íbúi blokkarinnar að reyna að koma hesti inn í stærri lyftuna.
Reyndi maðurinn að bakka hestinum inn í lyftuna með hvetjandi tali eins og : ,,svona kallinn, svona kobbinn minn, rólega, rólega.“ Hesturinn var óöruggur því það buldi í gólfinu undan skaflajárnunum. En þetta tókst manninum og hann strauk ofur blíðlega um snoppu hestsins og hvíslaði í eyra hans.
Ég var nú kominn á það stig að vilja blanda mér í málið. Það hafði nefnilega verið samþykkt á stofnfundi húsfélagsins fyrir mörgum árum þegar blokkin var glæný, að banna öll gæludýr í húsinu. Stór og smá. Hékk reglugerðin innrömmuð á áberandi stað við hliðina á lyftudyrunum.
Ég hleypti í brýrnar og bjó mig undir að benda manninum á reglurnar. Hann var þá búinn að ýta á takka og hurðin tekin að lokast. Ég setti fót fyrir hurðina ákveðinn í að benda manninum á brot hans, en áður en ég gat sagt orð brosti hann svo einlæglega til mín og sagði: „Þetta er bara smá tilraun. Tekur enga stund. Ætla með hann á svalirnar hjá mér.“ Orðlaus af undrun dró ég að mér fótinn sem hélt lyftuhurðinni. Hún lokaðist samstundis og lyftan fór af stað.
Þegar ég var kominn inn í mína íbúð heyrði ég frá hæðinni fyrir ofan hvar hesturinn gekk og fór út á svalirnar. Ekki er ég alveg klár á því hvað fór fram í hausnum á mér þessar mínútur. En ég fór út á svalirnar við mína íbúð. Hávært spark heyrðist í svalagólfinu fyrir ofan og svo gerðust þessi undur. Hesturinn stökk yfir handriðið með manninn á bakinu og flaug. Hann bókstaflega flaug, eins og það væri sjálfsagt og eðlilegt.
,,Ertu sofandi væni minn?“ hvíslaði Ásta mjúklega þegar hún fór fram úr og smeygði sér í inniskóna.
Góður!
Ævintýri gerast enn í vöku og í svefni.