Sá kvikmyndina í gær. Margt afar fallegt. Hross, landslag og fólk. Hvítársíða í Borgarfirði, nánar tiltekið Krókurinn, í stóru hlutverki. Mjög kunnuglegt. Margar senur heillandi.
Ung kona með sjö til reiðar og Zimsen bústaðurinn í baksýn. Húsfreyja á svörtum gæðingi ríðandi tl móts við sveitunga í hávöxnu grasi. Hross, þessar göfugu, dásamlegu skepnur leika stærsta hlutverkið í myndinni. Færa mann til baka um fimmtíu ár þegar unglingur reið þessar sömu slóðir og minning um hross í oss hrífur hugann.
Það hringlar í mélum. Taktfast fótatak tölts og skeiðs hljómar eins og hljóðfæri. Graðhestur frýsar, sveiflar þrútnum spenntum skaufa og fyljar glæsihryssu á förnum vegi, hryssu, sem vel að merkja, knapi situr á. Átta mig ekki alveg á viðbrögðum knapans. Kannski fannst ,,kóngi um stund“ tign sinni og valdi misboðið.
Atriðið um spænsku mannskræfuna er tæpast sannfærandi. Og það má velta fyrir sér brennivínsleiðangri bóndans út í erlendan togara. En í heildina er myndin falleg og mörg atriði heillandi. Það er glæsibragur yfir sveitungunum þegar þeir safnast saman til að smala stóði af fjöllum, menn í hrossum og hross í mönnum.
Þá er við hæfi að gera húsfreyju að drottningu um stund í fallegum hvammi við árbakka: ,,Farðu úr buxunum,“ segir hún við valdalausan kónginn sinn og unaðarhróp þeirra ríma við köll smalanna sem knýja stóðið í átt til byggðar. Hefði viljað að atriðið í Þverárrétt væri lengra. Það er sérstök og ólýsanleg upplifun að draga hross í stóðréttum.
Læt eftir mér að segja þetta. Falleg kvikmynd og bráðskemmtileg. Takk fyrir.