Eru eingöngu dvergar í ríkisstjórnum, og ef svo er hvað skyldi valda því? Ekki er hér átt við líkamlega dverga, sei sei nei. Hér er átt við andlega dverga. Það leggst að manni grunur um að eingöngu slíkir sækist eftir setu í ríkisstjórnum. Er það gjarnan mælt með árangri þeirra og verkum sem sjaldnast fylgja yfirlýsingum þeirra og fyrirheitum.
Þetta er sorglegt því þjóð, hvort sem hún er stór eða smá, þarfnast víðsýnna valdhafa, manna sem hafa stærð til að vera umsýslumenn hagsældar allrar þjóðarinnar. Ekki bara fárra, sem því miður, virðist vera markmið þeirra sem þjóðin hefir nú valið til að stjórna málefnum sínum.
Það kemur nokkuð ákveðið fram í orðræðu nýrra valdhafa að fremur skuli efla afkomu og framgang hinna sterkari en síður hinna veikari og það jafnvel á kostnað þeirra. Slík markmið hljóta að flokkast sem afurð dverga,- mjósinna manna sem alls ekki ættu að fara með völd þjóðar.
En einmitt þannig virðist mér stór hópur þeirra vera sem býður sig fram til setu í ríkisstjórnum. Því miður. Samt hljóta einhversstaðar að leynast menn sem hafa næga stærð. Tel jafnvel að þeir séu allmargir. Hversvegna ætli þeir bjóði sig ekki fram?
Mikið er ég sammála þér Óli. Er alltaf að velta fyrir mér hvað fólk er alltaf auðtrúa þegar loforðaflaumurinn kemur hjá þeim fyrir kosningar. Og ekki bætir húsbóndinn á Bessastöðum stöðuna þar höldum við út liði með ærnum kostnaði sem flytur lögheimili sitt til að þurfa ekki að borga skatta og skyldur hér. Kær kveðja.