Mikið er rætt um afmæli Akureyrar. Bærinn klæddur í hátíðarklæði og margskonar skemmtanir settar á dagskrá til að fagna tímamótunum. Það er vel við hæfi. Upp í hugann kemur fyrsta koma mín til bæjarins. Langt er um liðið.
Markmið ferðarinnar var heimsókn til Fíladelfíu í Lundargötu 12. Þá veittu þau starfinu forstöðu Jóhann Pálsson, forstöðumaður og kona hans Hulda Sigurbjörnsdóttir. Það var gott að hitta þessi elskulegu hjón. Lífsviðhorf þeirra og framkoma einkenndust af trú, lítillætiog hógværð.
Mér var heilsað með faðmlagi og boðinn velkominn í Jesú nafni. Það yljaði. Við áttum sameiginlegan griðastað í Ritningunum og ræddum þær fram og aftur í köldum samkomusalnum á neðri hæð hússins. Í samræðum okkar dvöldum við lengst við guðspjall Jóhannesar, hvar elskan og umburðarlyndið birtast eins og rósagarður í blóma.
Mér var tekið af þeirri rausn sem aðstæður hjónanna leyfðu,- en þeim var einatt naumt skammtaður kostur. Í þessari heimsókn tengdumst við vináttuböndum sem héldu meðan þau lifðu. Vegna trúareinlægni Jóhanns og Huldu og vináttu, upplifi ég mig sem einn af vinum Akureyrar og gildir það um okkur hjónin bæði.
Segi því, til hamingju með afmælið Akureyri.