Sighvatur

Þegar ég hafði sett Bónuspokann í bílinn gekk ég af stað í átt að apótekinu. Vantaði mixtúru til að mýkja hálsinn. Ég fór mér hægt. Treini mér gjarnan þau fáu erindi sem bjóðast. Það tengist aldrinum.

Tvær ungar stúlkur gengu framhjá mér. Önnur var meðal há, nokkuð þéttvaxin og gekk með litlum skrefum. Hin var talsvert hávaxin, grönn og hafði sérkennilegt göngulag. Hún var svolítið álút og gekk eins og á móti stormi. Hún hélt handleggjunum frá líkamanum og sveiflaði þeim.

Það var samt fótaburðurinn sem vakti sérstaka athygli mína. Hún var útskeif, hafði bil á milli fótanna og bar þá líkt og hún gengi í þýfi. Það var þá sem kviknaði á perunni. Ég þekkti þetta göngulag. Starfsfélagi minn í Mjólkárvirkjun sumarið 1975 gekk nákvæmlega eins og stúlkan. Hann var vinur minn og ég horfði oft á eftir honum og ígrundaði göngulagið. Nú ákvað ég að hitta stúlkuna.

Varð að hlaupa við fót því þær gengu rösklega. Náði þeim við dyrnar að versluninni. Sagði „halló“ og reyndi að ná athygli hennar. Hún leit á mig, ósátt við truflunina og sagði: „Hvað?“ „Fyrirgefðu,“ sagði ég, „fyrirgefðu, heitir pabbi þinn nokkuð Sighvatur?“ Hún hikaði við. Andartak. Sagði svo: „Nei, afi minn. Hann heitir Sighvatur.“

Þetta var á Smáratorgi í Kópavogi, skömmu eftir hádegi í gær.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.