Það ríkti kátína í salnum. Starfsfólkið, um þrjátíu manns, dustaði af vélum og gekk frá fyrir helgina. Það var föstudagur. Síðasti dagur mánaðarins og útborgun. Þetta var um mánaðamótin júní og júlí.
Það er svo margt á skjön
Liðin helgi var frábrugðin. Á laugardag sátum við fermingarveislu á Selfossi. Vorum snemma í því og ókum um bæinn. Bjuggum þar skamma hríð fyrir margt löngu. Þá voru bæjarmörk við Engjaveg. Mikil breyting hefur orðið þar á. Byggðin komin lengst suður í beitilönd bænda.