Það var í gær. Um miðjan dag. Ég átti erindi í banka niður á Smáratorgi. Í bankanum var slangur af fólki að bíða eftir afgreiðslu . Það hafði valið sér þjónustufulltrúa eða gjaldkera á snertifleti apprats sem ég kann ekki að nefna. Og fengið númer. Ég líka. 536.
Afgreiðslan gekk ekki hratt svo að ég skimaði eftir sæti til að hvíla mig. Þarna eru andstyggilegir stólar svo lágir að maður sest næstum því á gólfið. Út við glugga var bekkur. Hann var örlítið skárri. Ung kona sat á öðrum enda bekksins. Ég fékk mér sæti á hinum endanum og fór inn í sjálfan mig.
Allt í einu kom maður á miðjum aldri aðvífandi. Hann settist á milli mín og ungu konunnar og dæsti. Þá leit ég upp. Fannst ég kannast við manninn frá einhverri fyrri tíð. Rótaði til í hausnum á mér til að rifja hann upp. Þá segir hann allt í einu: „Er, er, þe,þe, þetta ekki Óli, -ó,ó,ó,Óli Ágústar?“
Mér finnst ekki þægilegt þegar menn ávarpa mig fullum hálsi þegar ég er innhverfur. Leit á manninn sem hélt áfram: „Ma,ma,manstu e, e, ekk, ekki eftir mér?“ „Það er nú varla,“ svaraði ég, „ég man ekki eftir að þú stamaðir svona.“ ,,Þa, þa, það er ný, ný, by,byr, byrjað.“ ,,É, ég fór í bí,bí bíó í fy, fyrra, da,dag. The, The, Ki, Ki,King´s Spee, Spee, Speech. Ko kom svo svo, svona ú, út.“
Konurödd kallaði: Fimmhundruð þrjátíu og sex? Ég kallaði á móti: ,,Þa, þa, það er ég.“
Þú ert fyndinn.
Ja svona er Ísland í dag.