Það var gaman að sýningunni í Þjóðleikhúsinu í gærkvöldi. Verulega gaman. Þessi ellefu manna leikhópur sem ber verkið fram á sviðinu er í einu orði bráðsnjall og sýningin bráðskemmtileg með öllum sínum brellum og lipurri sviðsmynd.
Um árið, þegar ég sá Ivanov, var ég gjörsamlega heillaður. Átti naumast orð til að lýsa hrifningu minni. Áhrifin af þessari sýningu eru ekki jafn klár. Kannski hef ég haft of miklar væntingar núna eða verið of bundinn bókinni. Fann votta fyrir vægri togstreitu í hausnum á mér, milli bókarinnar og leikverksins.
Leikverkið er meira og minna byggt á fleygum og frægum setningum, einskonar gullkornum, úr Gerplu Halldórs, sem og atburðum. Eru margar rúsínur tíndar til sem tryggja skemmtilega sýningu. Enda var leikhúsgestum vel skemmt.
Efst í huga mínum eftir sýninguna ber görpurnar Ilmi og Brynhildi. Þær eiga í manni hvert bein alla sýninguna út. Það er sama hvað þær gera og hvernig þær gera það, það hittir alltaf í mark. Maður fær einskonar ást á þeim. Ólafía Hrönn skilar vel hlutverkum sínum sem Þórelfur húsfreyja á Hávarsstöðum og Kolbrún, sú sem skáldið er kennt við. Og dróg úr því allan kraft.
Í heildina sagt standa allir leikarar sig vel. Sýningin er skemmtileg, gengur hratt og hnökralaust fyrir sig. Ég býst þó við að þeir fái meira út úr henni sem ekki hafa lesið Gerplu Halldórs Kiljans Laxness. En harmleikur sögunnar undirstrikast vel í lokin þegar söguhetjan, Þormóður kolbrúnarskáld, snýr heim, rúinn öllum gildum eftir að hafa helgað líf sitt eftirsókn eftir vindi.
Og í fjarska heyrir maður smellinn sem Óðinn Valdimarsson gerði frægan: …Að ferðalokum finn ég þig… …því ég er kominn heim.“
En þetta eru auðvitað leikmanns þankar.