Viltu færa þig væni minn

Samtalið hófst þegar sólin fyllti eldhúsið af skínandi birtu. ,,Ætlar þú að koma í hesthúsið með mér?“ spurði ég. „Já, endilega svaraði hún.“ Við klæddum okkur og gengum saman út í sólskinið.

Það var frost við jörð og brakaði í stráunum þegar við stigum niður. Ásta varð kát í sinninu og valhoppaði við hliðina á mér eins og börn gera þegar allt er í góðu gengi. Við fórum inn í réttina framan við hesthúsið og Ásta sagði: „Það væri gaman að stækka réttina svolítið í sumar.“

Við höfðum stundum rætt þetta. Við lokuðum réttinni og fórum inn í hesthúsið. Hestarnir lyftu hausum og sperrtu eyrun þegar við komum. Ég talaði til þeirra, bauð þeim góðan dag og hafði dyrnar opnar. Ásta sótti kambana og rétti mér annan. Hún fór upp í básinn hjá Lind en ég hjá Hrekk.

Hrekkur fékk nafnið þegar hann klessti nágranna okkar með afturendanum í eitt hornið á réttinni. Það var þegar hann var þriggja vetra. Þá var hlegið heilmikið en mannanginn kallaði á hjálp. Hinir heita einfaldlega Sóti og Háleggur, Sokki og Skjóni. Þeir draga nafnið af lit sínum. Þeir eru sjö í allt.

Það gufaði svolítið upp af klárunum og losnaði talsvert af hári í kambana. Þeir hölluðu sér á móti kembingunni og umluðu af vellíðan. Þessu næst leystum við þá og hleyptum þeim út í réttina. Þeir urðu glaðir í bragði og prjónuðu og jusu og nörtuðu hver í annan.

Lind var alltaf blíðlegri. Hún átti það til að ganga til Ástu og snasa í hálsakotið á henni og fara fram á að hún klóraði henni á bak við eyrun. Þá hallaði hún hausnum og ýtti á móti fingrum hennar. Kannski átti hún líka von á brauðbita. Ásta er alltaf svo lunkin.

Ég sótti börurnar, mokaði taði úr básunum og ók því út fyrir. Dreifði þvínæst dálitlu moði í básagólfin. Síðan settumst við undir vegg
og fengum kaffi úr brúsa. Það er ekki margt yndislegra en að sötra heitt kaffi undir vegg og finna loftið anga af hrossalykt.

Allt í einu segir Ásta stundarhátt: „Viltu færa þig væni minn, ég þarf að ryksuga undir stólnum.“ Þá hrökk ég við og reis á fætur. „Æ, fyrirgefðu.“

2 svör við “Viltu færa þig væni minn”

  1. ,,Ljúft er að láta sig dreyma ….“

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.