Óvenjuþétt var þokan í morgun. Þegar verst lét settist hún á svalirnar hér á sjöundu og huldi það sem þar er. Á slíkum morgnum sést ekki til annarra húsa. Svona var þetta í bítið í 109 metrum yfir sjávarmáli í Kópavogi.
Þar sem alkunna er að margt býr í þokunni ákvað ég á leið í verslun að leggja lykkju á leið mína og ók að Gerðarsafni. Þar stendur yfir sýning á fréttaljósmyndum síðasta árs. Að venju fór ég tvær yfirferðir um sýninguna. Einn gestur var þar fyrir
Eins og við var að búast skipa stjórnmálin stóran sess í sýningunni sem og þemu um mótmæli ársins. Margar myndanna þekkir maður úr blöðum og sjónvarpi, þykir þær kunnuglegar og kann sumar utanað. Það er þó ævinlega svo að ein og ein grípur mann umfram aðrar.
Myndröð eftir Rakel Ósk frá hrikalegum bruna Hótel Valhallar er harmsaga sem tekur í ýmsa tregastrengi. Upprifjun frá árum þegar foreldrarnir leiddu lítinn dreng sér við hönd og ræddu með virðingu um staðinn og sögu hans rennur yfir minnið.
Portrett ársins, eftir Heiðu Helgadóttur, er af Ólafi Ragnari Grímssyni lýsa, flassa, sjálfan sig upp. Það er nokkuð táknrænt fyrir þátttöku hans í þjóðmálunum.
Þá er mynd eftir Harald Jónasson af Árna Mathiesen, fyrrum ráðherra, að gelda hund, að mér sýndist. Táknræn mynd.
Tryggvi Þór kveinkar sér ógurlega þegar hann er sprautaður við flensu. Man ekki eftir að hafa séð smábarn bera sig jafnilla. Höfundur er Ómar Óskarsson.
Skip í þoku er mjög falleg mynd, kyrr, hlý og dulúðug. Höfundur Anton Brink Hansen.
Að venju heilla myndir Kristins Ingvarssonar mig alltaf öðrum fremur. Svo var einnig nú. Kristinn á þarna svart hvíta portrett mynd af Flosa Ólafssyni heitnum. Glæsilega mynd.
Upplýsingar um myndirnar voru í þægilegri hæð, þ.e. ekki niður við gólf eins og oft vill vera. En letrið á þeim er alltof smátt fyrir eldri borgara. Annars tiltölulega sáttur við sýninguna, þótt ég kunni ekki að hugsa eins og fréttaljósmyndarar.