Það vekur undrun að engin umræða fer fram um 38 % þjóðarinnar sem ekki kaus í hinni „miklu“ þjóðaratkvæðagreiðslu. Þrjátíu og átta prósent er stór hluti þjóðarinnar. Hluti sem áreiðanlega hefur skoðun og mundi koma fram og kjósa ef hann teldi eitthvað þýðingarmikið væri um að kjósa.
Svo er að heyra að í umræðunni sé þetta fólk afgreitt sem „dauðar sálir“ sem engu máli skipti. Það er rangt viðhorf. Margt af þessu fólki hefur tiltölulega klára skoðun á málunum og hafnar því að hlaupa eftir froðusnakkinu sem úðað er yfir þjóðina í óöguðum tilfinningahita.
Margir hafa orðið til þess að lofa forseta landsins í hástert fyrir hans framgöngu á þessum dögum. Eru þar á meðal fólk sem hafði megnustu skömm á honum fram að því. Það er ekki enn komið í ljós hvort aðgerðir hans verða þjóðinni til góðs. Teikn benda til að það geti orðið tvíbent.
Ríkisstjórnin hefur ekki verið lánsöm í viðbrögðum við neitun forsetans. Mörg atriði í ákvörðun hennar eru gagnrýni verð. Það má þó ekki horfa framhjá því að flest atriði í kringum þetta bankahrun eiga sér ekki hliðstæðu í landinu og því ekki einfalt að finna bestu lausnirnar.
Froðusnakkið í stjórnarandstöðunni er með endemum. Í eyrum óbreyttra hljómar það sem skaðræðistal. Ef stjórnarandstaðan hefur vald á Alþingi til að koma í veg fyrir samninga, þá er auðvelt að álykta að hún hafi einnig vald til þess að láta samninga takast. Af hverju gerir hún það ekki?
Svo spyrja menn sig hvað töfin á samningunum kosti. Verður sá kostnaður meiri eða minni en sá ávinningur sem næst að lokum? Það er erfitt fyrir venjulegt fólk að greina kjarna máls af tali stjórnmálamanna. Allur þeirra málflutningur bendir til að undir hverri ræðu búi allt önnur markmið en þau sem á yfirboðinu sjást.
Það er óviðunandi, fullkomlega óviðunandi, að bankarnir rísi upp margfalt sterkari en þeir voru fyrir hrun á sama tíma og tugir þúsunda almennings missi fótfestuna í lífinu. Það er engin leið að sætta sig við að upphrópunar frasarnir í munni stjórnmálamanna um nauðsyn þess að bjarga „heimilunum í landinu“ séu innantóm orð.
Sextíu og þrír menn sitja á Alþingi. Karlar og konur. Og ekkert gengur. Hvers á óbreyttur almúginn að gjalda af hálfu þessa liðs?