Það er í rauninni enginn vegur fyrir venjulegt fólk að mynda sér sannfærandi skoðun á þjóðmálunum á þessum vikum. Framboð af þvælu er svo gjörsamlega glórulaust að viðbrögð óbreyttra verða eins og þegar gengið er á glóðum. Það er gjörsamlega ómögulegt að standa í fæturna.
Það er ekki sanngjarnt að hræra svona í almenningi. Fullyrðingar og upplýsingar eru svo misvísandi að mönnum dettur helst í hug að hver einasti maður sem um þjóðmál fjallar sé að ljúga. Og það vísvitandi. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu? Hvað hefur almenningur gert af sér að verðskulda slíkan framgang?
Það eina sem virðist vera í hendi er að bankarnir fitna og fitna eins og andskotinn á fjósbitanum. Bankaráðsmenn og klíkurnar á bak við þá draga til sín allt blóð þjóðarinnar og almenningi er hótað þjóðargjaldþroti. Af hverju talar enginn maður, karl eða kona, á þann veg að við dauðu sálirnar eygjum einhverstaðar möguleika á að komast af?
Sturla Böðvarsson segir í Pressunni að landið sé stjórnlaust og að Bjarni Ben og Sigmundur verði að vera tilbúnir að taka við til að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl. Hvað kjölur er það sem er hinn rétti í heilabúinu í Sturlu? Er það kjölurinn sem skútan sigldi á til helvítis 2008?
Miðað við yfirlýsingar þerra kumpána, Bjarna og Sigmundar að undarförnu, þá sýnist manni að þeir viti ekki einu sinni hvað kjölur er. Og þeir eru ekki einir um það. Svo er að sjá, því miður, að Jóhanna og Steingrímur séu ekki klár á því heldur.
Ástandið er ekki í lagi. Fólk verður að taka sig saman og finna lausn. Til þess var það kosið. Öll lofuðu þau að hafa allt uppi á borðunum, gagnsætt og auðskilið. En til þess svo verði þarf fólk að hætta að ljúga. Það er númer eitt.
Þakka þér fyrir.
Skorinort, skýrt og manneskjulega orðað.
Góður postill.
Hætta að ljúga það er málið. Ef einhver greinist með krabbamein þá vill sá hinn sami fá sannleikann um sjúkdóminn. Þjóðfélagið er haldið meinum og það er betra að vita hver þau eru í raun til að hægt sé að vinna á þeim. Þetta ringl í almenningi og rugl sem kemur frá ráðamönnum er ekki til þess gert að þjappa þjóðinni saman. Góður pistill hjá þér Óli.
Þakka þér fyrir þennan frábæra pilstil.
Ég er svo hjartanlega sammála.