Í hvert sinn sem ég heyri og eða sé Bjarna Ben, formann Sjálfstæðisflokksins, tjá sig í fjölmiðlum, fer mér að líka betur og betur við Steingrím Joð. Það er sérkennileg lífsreynsla.
Í Kastljósinu í fyrrakvöld reyndi ég að hlusta á svör Jóhönnu Sigurðardóttur. Spyrillinn greip stöðugt fram í fyrir Jóhönnu þegar hún reyndi að svara. Ég fékk á tilfinninguna að fréttamanninum væri meira í mun að sýna fram á hve snjall spyrill hún væri heldur en að svör Jóhönnu skiluðu sér.
Mogginn í dag hefur mikið vit á því hvað Jóhanna Sigurðardóttir er lélegur stjórnmálamaður. Kemur það fram á fleiri en einum stað. Ég tel það vera hrós um Jóhönnu að Mogginn telji sig þurfa að eyða svo miklu púðri til að draga úr trúverðugleika hennar.
Síendurtekin krafa Bjarna Benediktssonar um þverpólitíska sátt er varla nokkuð sem hann hefur lært í flokknum sínum, né heldur ábúðarmikil yfirlýsing þeirra félaga, Bjarna og Sigmundar, um óþolinmæðina. En það er alltaf frískandi að heyra orð sem fá mann til að hlægja.
Þetta eru skrýtnir tímar. Góð greining hjá þér. Ég finn einmitt vanmátt minn í því að greina hvað er hvað og þá er gott að lesa svona hnitmiðaðan texta. Takk.