Það er með miklum ólíkindum hvað fólk getur verið seinheppið. Þorgerður Katrín skrifar grein í Morgunblaðið í dag. Þar segir: „…þær klyfjar sem ríkisstjórnin leggur á fólk og fyrirtæki mega ekki verða til þess að fólk kikni undan þeim.“
Þorgerður Katrín er glögg á verk núverandi ríkisstjórnar. Hún virðist ekki jafnglögg á verk þeirrar ríkisstjórnar sem hún sat í og skapaði þennan mikla vanda sem nú kallast óbærilegar klyfjar. Orðræða Þorgerðar Katrínar vekur ekki þá von í brjósti fólks sem hún kallar skyldu allra stjórnmálamanna að veita.
Og meira úr Mogganum: „Fjölskyldur sem eiga meira en 150 milljónir eiga samtals 468 milljarða í framtaldar eignir. Það er 1.282 fjölskylda sem á þessar miklu eignir…, …37.320 fjölskyldur skulda meira en þær eiga.“ Þetta segir Morgunblaðið í morgun og vitnar í Tíund, fréttablað ríkisskattstjóra.
Fákænum virðist nokkuð augljóst að stjórnmálalegt umhverfi síðustu áratuga hefur búið þeim fáu aðstöðu til þess að hagnast á kostnað hinna mörgu, og stjórnmálamenn þess tíma geta ekki vikið sér undan því. Skynsamlegt væri af þeim að hafa það hugfast.
Miklir kórar hefja nú reglulegar söngæfingar vegna skattaumræðunnar. Hraustir menn útgerðar, samtök atvinnuvega og fjármagnseigendur og höndlarar brýna nú raustir í grátkórum til þess að verja hagsmuni sína. Eignir og gróða síðustu áratuga. Samt hefur maður á tilfinningunni að einmitt fólk í þeirra röðum stundi allskyns undanbrögð frá reglum til að komast hjá eðlilegri þátttöku í samneyslu þjóðarinnar. Ekki að undra þótt stundum sé vitnað í kýrhausa.
Góður pistill hjá þér Óli. Ég get tekið undir hvert orð. Kær kveðja.