Maður veltir fyrir sér hvaðan þeir koma, svörtu hundarnir. Koma þeir hugsanlega úr bjarmanum af svartri sól. Það getur varla verið bjarmi af svartri sól.
Vikusálir. Þær koma óvænt. Gera sig heimakomnar. Draga tjöld fyrir glugga. Hefja ásókn. Ymjandi rödd. Sagt er að tungumálið geti bjargað. Hægt sé að skrifa sig frá þeim. Tala sig frá þeim. Biðja sig frá þeim. Eða þær á brott.
„I felt a funeral in my brain,…“ segir Emily Dickinson á einum stað, „And mourners, to and fro, “. Það er varla þægilegt. Hún heldur áfram: „Kept treading – treading- till it seemed / That Sense was breaking trough.“
Tilraun er að snúa sér að bókum. „Bækurnar mínar hafa alltaf tíma fyrir mig – þær eru aldrei uppteknar.“ sagði Cicero. Það er auðvitað rétt. En hvaða höfunda? Þú strýkur fingurgómum yfir kilina. Hillu eftir hillu. Þeir vilja ekki staðnæmast. Fara aðra umferð. Og aðra.
Dulvitundin býr yfir margskonar minningum. Í bókinni „Í róti hugans“ segir Jamison á einum stað: „En í þetta sinn féll ég á kné án nokkurs algleymis og baðst fyrir án trúar. Mér fannst ég vera utanveltu þarna en fann þó djúpan frið og ró.“
Hér er líka „Gamli maðurinn og hafið“ eftir einn af stóru rithöfundunum. Fingurinn nemur staðar. Gamall maður fór á sjó. Hann veiddi stórfisk.
Stefndi til lands með fenginn í togi. Hákarlar streymdu að og átu afla gamla mannsins upp á leiðinni í land. Beinagarðurinn einn eftir. Hljómar eins og eins og frásögn af íslensku hruni.
Stefán frá Hvítadal yrkir um Bjartar nætur. Leggur hnakkinn sinn á folann Rauð og ríður geist, unz birtir. Sólin er ekki lengur svört.
Hér á þessum bæ þekkjum við svartan hund sem kemur og sest að á heimilinu.
Hann kemur án þess að gera boð á undan sér, dvelur mislengi og er svo allt í einu horfinn, eins og hundurinn í sveitinni sem bregður sér á aðra bæi á lóðaríi.
Einu hef ég löngu komist að um þetta húsdýr, að það kemur og fer, að mestu óháð öllu sem um er að vera eða að steðjar.
Það getur verið skelfing sárt að horfa upp á ástvini sína takast á við skepnuna og viðurkenna getuleysi sitt gagnvart þessum heimsóknum.
Ráð til geðbótar eru óteljandi, flest góð en oft er fólk of illa haldið til að taka því ,sem reynt er að gera eða benda á.
Ekki ætla ég mér þá dul að segja hvernig á að temja svantan hund, en vona að sem flestir nái einhverjum tökum á skepnunni þegar hún kemur í heimsókn.