Eftir að hafa ræktað alskegg í andlitinu um áratuga skeið, með sárafáum hvíldum, kostar það allnokkur átök að ákveða að farga gróðrinum. Ákvörðunin tók viku þetta skiptið. Hafði þá farið í spegilinn aftur og aftur og spjallað við andlitið um málið.
Þá nefndi ég þetta í nokkrum sinnum við frúna, svona eins og í utandagskrárumræðum, en hún lét sér fátt um finnast. Hvað mér þótti fremur knappt. Minnugur þess að síðast þegar ég beraði á mér fésið, án umræðu, og Ásta kom heim úr vinnu sýndi hún þessi yndislegu viðbrögð og sagðist fá í hnén.
En, eins og ég sagði, þá er það talsverð ákvörðun að raka af sér alskegg og ekki síst svona fullorðið og þroskað skegg, svo ég ákvað að láta yfirskeggið lifa nokkra daga. Málið var ekki mikið rætt á heimilinu og ekki nefnd nein viðbrögð í hnjám. Fyrr en á þriðja degi. Þá sagði eiginkonan án fyrirvara og með alvöruþunga: „Ég þoli ekki þetta yfirskegg. Þú ert eins og tilgerðarleg persóna sem ég kannast ekkert við.“
Ég nefni þetta svona í framhjáhlaupi. Er nefnilega á leið í spegilinn að raka mig. Æfingin skapar meistarann.
Fulla trú að uppskerir nú tilætlaðan hnéskjálfta