Helgin hafði verið svo elskuleg í litla kofanum okkar Ástu. Föstudagur einkenndist af suðaustan átt og rigningu. Laugardagur af suðvestan átt og rigningu. Hvað er hægt að hugsa sér ánægjulegra þegar maður drekkur í sig refsingarbrjálsemi Raskolnikofs. Rodja.
Húsakynnin í sögunni eru lítil og þröng. Stigagangurinn og herbergin dimm og óhrein. Ljós af einu kerti. Fólkið er klætt notuðum fötum af öðrum. Það er dimma og drungi yfir öllu. Mönnum og munum. Þess vegna virkaði Pjotr Petrovits, tilvonandi mágur Rodja, eins og blómahaf þegar hann mætti á svæðið:
„Allur klæðnaður hans var nýr af nálinni og allur hinn vandaðasti […] Jafnvel spjátrungslegi kúluhatturinn […] Glæsilegir ljósrauðir hanskar […]Hann var í ljósbrúnum sumarjakka, ljósum og léttum buxum og vesti í stíl við þær, splunkunýrri skyrtu úr þunnu efni og með næfurþunnt, bleikröndótt hálsbindi. […] Dökkt kjálkaskegg myndaði skemmtilega umgjörð um andlit hans, í laginu eins og tvær kótelettur…“ Lesarinn stendur sig að því að hlægja stundarhátt yfir makalausum lýsingum þótt undir öllum textanum liggi kveljandi og nístandi angist.
Í morgun var heiðskírt og stafalogn. Tunglið um það bil fullt. Vantaði einn dag upp á. Stjörnur tindruðu ákaflega í hvelfingunni. Eftir hálfsjö kaffi og samræður var ákveðið að skríða aftur upp í og lesa fram að Heimi hugmyndanna sem Ævars Kjartanssonar og Páls Skúlasonar sjá um.
Að loknum útvarpsþættinum tók sólin að gægjast upp fyrir öxlina á Oki. Tilveran breyttist. Hrafnarnir úr Sámsstaðagili skönnuðu móana í músaleit. Gelgjurnar þeirra frá í sumar voru í grenndinni. Fleiri bættust í hópinn. Við tókum að tygja okkur.
Ókum loks heimleiðis á messutíma. Höfðum útvarpið á. Í hverri sveit var hópur heimahrafna á sveimi. Raulað var í hljóði yfir stýrið: Krummi, krummi, krunkar úti, og kallar snjall á nafna sinn, og segir, ég fann höfuð af hrúti sem þegir. Komdu nú með mér að kroppa, kroppa, kolsvarti fuglinn þinn. (Með sínu lagi).
Það var fátt um bíla á vegunum. Héraðið baðað í sól. Haust og vetrarlitir ríkjandi. Í Leirársveit á fegursta degi vetrarins blasti við okkur óvenjuleg sýn. Ég tók eina mynd. Það var önnur mynd dagsins. Hin er gáta.
Ég ætlaði að veðja á þakið…en ákvað að halda kj! 🙂
Glæsilegt hjá þér kæri Steindór Óli. Frostrósir á sólpalli. En birtan þarna kemur frá fyrsta skini morgunsólar sem gægist yfir öxlina á Oki.
Gólffjalir í sólpalli huldar frostrósum í mánaskini ?