Þeir eru miklir vinir og hafa ræktað vináttu sína lungann úr ævinni eða frá því að þeir sem unglingar unnu við að stafla tréspírum um hávetur í snjó og kulda. Berhentir. Eftir starfslok reyndu þeir að hittast reglulega. Skapgerð þeirra var ólík en félagsskapurinn sem þeir höfðu hver af öðrum var þeim kær. Í gærmorgun höfðu þeir setið alllengi þöglir og horft á trillurnar, múkkana og æðurin. Hannes rauf þögnina.
Hannes: Varstu á spítala í gær?
Helgi: Af hverju helduru það?
Hannes: Fríða frænka mín sagðist hafa séð þig á Landspítalanum.
Helgu: Fríða, var hún þar?
Hannes: Það hlýtur að vera.
Helgi: Hvað var hún að gera þar?
Hannes: Hún er alltaf að glíma við þetta blöðruvesen.
Helgi: Pissar hún í sig?
Hannes: Já, þegar hún hóstar.
Helgi: Blessuð konan. Það hlýtur að vera óþægilegt.
Hannes: Já, það hlýtur að vera það. En hún sagðist hafa séð þig.
Helgi: Nú já.
Hannes: Varstu kannski ekki þar?
Helgi: Ég kom þar við.
Hannes: Hún sagðist hafa séð þig á röntgendeildinni.
Helgi: Það er naumast nákvæmnin.
Hannes: Og þú hefðir verið þungur á svipinn.
Helgi: Þungur? Það er nú varla nýtt.
Hannes: Var verið að rannsaka þig eitthvað?
Nú varð þögn. Hannes ákvað að ýta ekki um of á vin sinn og beið um hríð. Einn og einn bíll ók hjá. Fátt var um gangandi fólk. Hannes stóð upp og gekk hring umhverfis bekkinn.
Hannes: Þú hefur varla verið þarna út af engu.
Helgi: Nei. Mér skipað það.
Hannes: Hvað var þér skipað?
Helgi: Að fara í sneiðmynd með hausinn.
Hannes: Sneiðmynd með hausinn? Er eitthvað að í hausnum á þér?
Helgi: Það veit ég ekkert um.
Hannes: En kom ekki eitthvað út úr þessu?
Helgi: Það var voða skrítið.
Hannes: Ertu með æxli eða eitthvað?
Helgi: Það er nú eiginlega verra en það.
Hannes: Verra en það?
Helgi: Æjá, þeir töluðu mest í hálfkveðnum setningum.
Hannes: Fundu þeir þá ekkert?
Helgi: Eitthvað þóttust þeir hafa fundið
Hannes: Og hvað fundu þeir?
Helgi: Þeir sögðu það væri allt tómt.
Hannes: Tómt?
Helgi: Já. Eins og hellir.