Síðastliðinn sunnudag hertum við gamla mín upp hugann og ákváðum að líta á bókamarkað Forlagsins á Fiskislóð. Ásta tók að sér að vera bílstjóri og gegndi ég því stöðu aðstoðarbílstjóra. Eftir tvær eða þrjár vinsamlegar ábendingar frá mér um aksturslag og götuval, sagðist hún vilja að ég flytti mig í aftursætið. Ég kaus frekar að þegja enda þröngt í aftursæti hins risasmáa Yaris.
Þegar á markaðinn kom, þar var talsvert af fólki og ýmsir sem keyptu fullar innkaupakörfur, tók ég að skima eftir Fávitanum. Komst að því fyrir skömmu að ég á bara fyrra bindið og hef verið að lesa um það athyglisverða fólk Myshkin fursta, hina óútreiknanlegu og glæsilegu Nastösju Filippovnu, Rogósjín og allt það sérkennilega fólk sem umhverfis þau snýst. Kannski fengi ég seinna bindið hér á útsöluverði.
Eftir að hafa gengið eina og hálfa umferð með hlöðnum borðunum kom aðvífandi starfsstúlka markaðarins, svartklædd og þokkafull í aðþröngum fötum. Hún var að fylla á þar sem bækur vantaði. Ég hallaði mér að henni og spurði ljúflega eins og fólk gerir þegar það á hagsmuna að gæta: „Er Fávitinn hér?“ Og hún svaraði að bragði, glaðlega: „Það er nóg af þeim. En ekki í bókarformi.“
Ég ítrekaði spurninguna eftir að hafa hlegið við þessari glaðlegu ungu konu og þá hugsaði hún sig betur um og komst að sömu niðurstöðu. Ég mundi ekki að það var Mál og menning sem gaf bókina út en þarna voru eingöngu bækur Forlagsins. Við keyptum sína bókin hvort, hjónin, ég Kjallarann eftir Steinar Sigurjónsson og Ásta bókina Upphækkuð jörð eftir Auði Ólafsdóttur. Samtals í kringum tólf hundruð krónur.
En svo ég víki örlítið að Fávitanum, sem er í flokki frægustu og mestu skáldsagna allra tíma og bókmenntafræðingar súpa hveljur yfir þegar þeir nefna hana, þá er sagan aðallega um einn mann sem aðrar persónur sögunnar líta á sem fávita, en lesandinn kemst fljótlega að því að flestir hinna eru eiginlega meiri fávitar en hann.
Maður spyr sig á tímum kreppu og ómarkvissrar þjóðfélagsumræðu dægranna, hver sé fáviti og hver ekki. Spurningin loðir við mann undir gagnlitlu þvaðri fjölmiðlanna og upp í hugann kemur setning sem bóndi einn í Borgarfirði hafði oft fyrir munni sér fyrir hálfri öld eða svo: „Allir hafa á öllu vit, en enginn kann að skammast sín.“
Góður pistill.