Enn eitt árið stend ég mig að því að mana sjálfan mig til að líta við á hátíðinni. Það er ekki í fyrsta sinn. Öll fyrri skiptin fann ég upp á þokkalegri afsökun (við sjálfan mig) til að komast hjá því að fara. Svakaleg fælni er þetta.
Svona mikið af stórmennum allsstaðar að úr veröldinni samankomin á einum stað er einfaldlega of mikið fyrir mig. Og fasið á íslendingunum í slíkum messum er gjarnan eins og þeir eigi pleisið. Einir. Einfeldningar verða utanveltu þegar þeir sjá bara bakhlið fjallanna.
Maður getur svo auðvitað sefað sig og spurt eins og Foucault: Hvað er höfundur? og beitt aðferðafræði sjálfsréttlætingar, nýtt vangaveltur hans og hugmyndir um höfunda, og fundið niðurstöðu sem réttlætir ákvörðunina um að halda sig fjarri: „Hverju skiptir það hver talar?“