Þessi helgi er helgi sigra og gleði. Einnig veisluhalda og fagnaða. Ekki færri en sjö einstaklingar tengdir fjölskyldunni fagna útskrift úr námi. Allt eru það sigrar. Veislur voru haldnar í gær. Ein fjölmenn, önnur tveggja manna. Sigrar og gleði.
Við gamla mín fórum í smá bílferð skömmu eftir hádegi í dag. Áfangastaðir voru þrír. Byrjuðum í Gróðrarstöðinni Mörk. Þar var allmargt fólk að kaupa plöntur. Við skoðuðum verð. Skrifuðum þau niður. Á einum stað stóðu tveir bakkar stóðu hlið við hlið. Á öðrum stóð elri, hinum ölur. Hver er munurinn?
Næsti áfangastaður var Kjarvalsstaðir. „Frá Unuhúsi til Áttunda strætis.“ Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir. Sál mín fylltist af gleði og skellihló innan í mér þegar inn í litla herbergið kom og hetjurnar úr Unuhúsi umluktu mig. Það voru ólýsanleg hughrif. Þvílíkir listamenn, Nína og Louisa. Og fyrirmyndirnar. Yndislegar. Þarna er mögnuð veisla á boðstólum. Frábær sýning sem allir ættu að skoða. Aðgangur ókeypis.
Við enduðum á útisvæðinu í Garðheimum. Og þá tók að rigna.