Það var ekki fyrr en í þessari viku sem ég loksins braut regluna. Hún var sú að taka ekki Bach með í bílinn. Paganini var eiginlega eini sígildi höfundurinn sem ég dró með mér niður á það plan. Þangað til í fyrradag. Þá féll ég. Svo ók ég umhverfis Reykjavík. Þetta var á uppstigningadag.
Ásta var austur í Skálholti með bekkjarsystrum í Kvennaskólanum í Reykjavík frá 1957. Ég dró fram diskinn með Bach. Helmut Walcha leikur á orgel í St. Laurenskirkju í Alkmaar. Walcha var blindur. Magnaður orgelleikari samt. Sagt er að kona hafi með ást og þrautseigju leiðbeint honum og hjálpað honum að ná tökum á orgelinu. Þegar hann taldi sig fullnuma fann hann sér aðra konu.

Ég stillti tónlistina hátt. Var einn í bílnum og umferð fremur lítil. Það var samt strax á Fífuhvammsveginum sem ég gleymdi að keyra. Bílar þöndu flautur þegar ég ók ekki af stað á grænu ljósi. Mig langaði að aka hægt og einbeita mér að hlustuninni. Aðrir bílstjórar voru ekki í þeim gír. Öllum lá einhver ósköp á. Þeyttust frammúr báðumegin norður Sæbrautina.

Ég beygði niður í Sundahöfn. Slakaði á við stóra skemmtiferðaskipið. Veðrið var milt. Tónlistin yndisleg. Tók samt eina eða tvær myndir. Innhverfur. Ekki einhverfur að ráði. Eftir slór og hangs lá leiðin niður á Reykjavíkurhöfn. Umferðin jafn árásarhneigð. Lenti loks á eftir húsbíl. Það var þægilegt.

Komst að því að það er ekki skynsamlegt að reyna að hlusta á dýrmæta tónlist innanbæjar. Allt of margir sem mislíkar við mann og sýna það með því að flauta og tæta frammúr. Svo þegar kom að adagio kaflanum í C-dúr toccötunni lagði ég einfaldlega utan vegar.

Ég reyni þetta ekki aftur fyrr en við förum í Borgarfjörð næst. Vonandi verður það fljótlega. Á níutíu eða hægar.
Hér er slóðin að verkinu. Adagiokaflinn er miðkaflinn:
http://www.youtube.com/watch?v=zvLBFdNoWrQ