Maríuerluparið hamaðist við hreiðurgerð. Þóttumst við þekkja ættarsvipinn á þeim, að hér væru ömmubörn fyrsta parsins sem bjó undir þakskeggi kofans eitt sumarið. Og brostum í kampinn. Héldum svo heimleiðis í dag. Hina leiðina.
Við tilraunabúið á Hesti var hópi lambáa sleppt í lítið beitarhólf. Lömbin sugu þrýstin júgur mæðra sinna. Fjárhirðir var skammt undan með rúllubagga framan á dráttarvél. Hann stefndi til þeirra. Smellið á myndirnar.

Litlu síðar stansaði verkstjóri vegaviðgerða hjá Borgarverki og heilsaði glaðhlakkalega. Rögnvaldur Óli Jónsson. Barnabarn. Eftir stutt samtal og fréttir af vel heppnuðum kórsöng, kvöddust þau af ástríðu, amman og Rögginn.


Á hinni leiðinni voru álftir í hópum. Þeim leist ekki vel á að bíllinn hægði ferðina. Ásta greip í stýrið og mynd var tekin út um glugga.

Ferjukot og næsta umhverfi er staður milljón minninga. Laxveiði í net. Faxaborg. Íþróttamót. Hestamannamót. Hlaup, stökk og kappreiðar.
Og öll þessi dulitlu drög sem slíkum mannamótum fylgja.

Þá eru sögur af veginum yfir Ferjukotssíkin margfrægar. Ár eftir ár seig hann og sökk og ár eftir ár varð að bæta í hann efni til að halda honum upp úr vatni. Nú var þarna friðsælt. Hópur fáka á beit. Við ákváðum að taka þá með og leyfa fleirum að sjá þessi Íslands göfugustu dýr, háma stör á vatnsbakka.

Umvefjandi landslag Borgarfjarðar lumar á glettnum yfirlýsingum sem sumar hverjar minna gamla menn á að vafasamt sé að taka sumarmyndir löngu áður en sumarið er komið.

Flottar myndir, kær kveðja.