Alveg er það með ólíkindum hvernig fólk stekkur á Þráin Bertelsson vegna þessara heiðurslauna sem hann hefur fyrir ritstörf og nánast stimplar hann dusilmenni fyrir að afþakka þau ekki strax daginn eftir kjördag. Það verður áreiðanlega eitthvað annað en þessir peningar Þráins sem fólk þarf að fylgjast með hjá byrjendunum í Borgarhreyfingunni þegar þeir taka til starfa á alþingi og reyna að læra að ganga.
Þá er ég ekki enn kominn yfir undrun mína á hrokafullri tilraun Þorgerðar Katrínar til að stoppa Þráin af í umræðuþætti í sjónvarpi um helgina. Þar skaut hún því að honum að hann skyldi tala varlega og líta í eigin barm þar sem heiðurslaunamálið væri. Rétt eins og um alvarlegan siðferðisbrest væri að ræða.
Skynsamlegt svar Þráins var samt ljúflegt. Hann sagðist ætla að kynna sér hvernig slík mál, mál um aðrar tekjur þingmanna en þingfararlaun, hafi verið meðhöndluð í þinginu fram að þessu. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins ætti að geta útskýrt það. Hún hefur setið lengi á þingi.