Það sést á hegðun fuglanna við höfnina að vorið er í loftinu. Það er í vængjum þeirra og tilhugalífi. Bæði þeim sem flögra yfir sem og þeim sem sitja á haffletinum og láta reka. Sjórinn er sléttur. Yfirborð hans liðast mjúklega. Trilla stímir inn um hafnarmunnann. Félagarnir Helgi og Hannes sitja saman á bekknum. Hafa verið þar dágóða stund. Þeir hafa hneppt efstu tölunni frá kuldaflíkum sínum. Hitinn er tíu gráður. Snjáður barnavagn stendur við hlið bekksins.
Hannes: Maður andar djúpt á svona degi.
Helgi: Fínn dagur.
Hannes: Tilveran mjúk og aðlaðandi.
Helgi: Heldur betur.
Hannes: Það er eins og allt verði viðmótsþýtt.
Helgi: Já.
Hannes: Finnst þér það ekki?
Helgi: Það á nú varla við um okkur.
Hannes: Ég átti nú við lífið og tilveruna.
Þögn.
Hannes: Maður er loks laus við þvæluna í þinginu.
Helgi: Tími til kominn.
Hannes: Já. Það var það sko.
Helgi: Ljóta bullið.
Hannes: Ljóta bullið.
Helgi: Steypa.
Hannes: Rökþrota lið.
Helgi: Vindmyllur.
Lítill hópur útlendinga gengur rólega fram hjá bekknum í átt að hvalaskoðunarbátunum. Allir hafa myndavélar. Einn tekur myndir af þeim félögum. Segir eitthvað óskiljanlegt.
Hannes: Þeim lýst nú ekki svo illa á okkur þessum.
Helgi: Jæja.
Hannes: Þeir væru þá varla að taka myndir af okkur.
Helgi: Kannski halda þeir að við séum hvalir.
Hannes: Hvalir?
Helgi: Já. Eða hafmeyjar.
Hannes: Hafmeyjar? Ekki nema það þó.
Helgi: Eins og í Kaupmannahöfn.
Hannes: Þú ert fyndinn í dag, þykir mér.
Helgi: Það gerir vorið.
Hannes: Auðvitað. Fer í þig eins og hina fuglana.
Helgi stendur upp. Brettir upp kragann og hneppir efstu töluna að. Hann gengur að barnavagninum, hallar sé yfir hann og lagar sængurfötin. Losar þvínæst um bremsuna og horfir upp eftir Ægisgötunni. Hannes fylgist forviða með. Horfir ýmist á vagninn eða framan í Helga.
Hannes: Ert þú með þennan barnavagn?
Helgi: Hvað sýnist þér.
Hannes: (Enn jafn undrandi) Og hvað? Til hvers?
Helgi: Er það eitthvað merkilegt?
Hannes: Mér finnst það.
Helgi: Ég á erindi.
Hannes: Hvaða erindi?
Helgi: Niður á Austurvöll.
Hannes: Austurvöll? Segðu maður. Segðu.
Helgi: Þegar fundi lýkur þá verð ég við þinghúsið.
Hannes: Nú?
Helgi: Já. Ég ætla að hitta nýja gaurinn.
Hannes: Hvaða nýja gaur?
Helgi: Nýja formanninn.
Hannes: Og hvað? Þekkirðu hann? Hitta hann? Til hvers?
Helgi: Ég ætla að bjóða honum far.
Hannes: Í barnavagninum?
Helgi: Já.