Þetta er fyrsti dagurinn sem vorið kom upp í gegnum iljarnar. Hefur þú fundið það? Þess vegna dustaði ég rykið af bandaskónum mínum og fór niður í Sundahöfn. Ætlaði að tala við æðarfuglinn. Hann lét ekki truflast. Alltaf jafn heimspekilega sinnaður.
Það væri gott að geta verið jafn staðfastur í heimspekinni og æðarfuglinn. Þá léti maður ekki stjórnmálin angra sig. En þegar afkoma manns er í húfi þá tekur maður tarnir og leitar að fólki sem maður treystir nógu vel til þess að kjósa það á þing. Mér hefði fallið vel að fá að velja einstaklinga. Það er allt of mikið af óspennandi fólki á framboðslistunum.
Hvað um það. Bandaskórnir spígsporuðu með mig um svæði í Sundahöfn. Svæði þar sem ég hef ekki komið á áður. Það var fróðlegt. Samt var það kyrrðin sem umvafði mig svo elskulega og rósemi fuglanna. Ekki að mig langi neitt sérstaklega að vera æðarfugl. Það nægir að vera fugl.
Og af því að ég hef stundum tekið myndavélina með, í svona kyrrðargöngur, þá gerði ég það einnig núna. Hún er eins og félagi. Maður spjallar við hana þótt engin mynd sé tekin. Við stönsuðum samt nokkra stund. Söknuðum þess að sólin var ekki til að mynda andstæður í ljós og skugga. Fórum þakklát heim. Öll þrjú. Bandaskórnir, myndavélin og ég.
Svo sýð ég ýsu handa okkur Ástu minni í dagslok. Það er gott eftir hátíðisdagana. Með rauðum kartöflum, bræddu smjöri og heimabökuðu rúgbrauði. Þetta er snilldarr dagur.
Blessað vorið!
Glæsilegar myndir.