Talað er um kynslóðaskipti í stjórnmálunum. Hvað fellst í því? Nýi formaður Sjálfstæðisflokksins segir sárafá orð um ekki neitt. Varaformaðurinn, aftur á móti, segir alltof mörg orð um ekki neitt. Segist samt ætla að berjast fyrir flokkinn, fyrst, þjóðina síðan.
Formaður Samfylkingarinnar hrópar í sigurgleði hundrað ára slagorð sem aldrei fengu gildi. Varaformaðurinn er tilgerðarlegur og hummar hingað og þangað eins og hans er vandi. Ekkert orð hefur verið sagt hreint út um aðgerðir sem koma eiga okkur almúganum til hjálpar.
Við morgunmatinn í morgun spurði Ásta hvernig á því stæði að við, verkamannafjölskylda um sjötugt, hefðum aldrei í gegnum tíðina upplifað aðgerðir stjórnvalda sem komu okkur áþreifanlega til góða þrátt fyrir milljón yfirlýsingar ráðamanna um vilja til að „mæta fólkinu í landinu“, „bjarga fólkinu í landinu“. Þaðr er eins og tuggurnar einar eigi að nægja. Orð en ekki athafnir.
Fer samskonar tími í hönd? Af hverju hefur ekkert verið sagt sem telur í okkur kjark og vekur von? Hverskonar stjórnmálamenn eru þetta „kynslóðaskipta“ fólk sem nú vilja fá kosningu til Alþingis?
Á seinni bollanum rifjuðum við upp slæma tíma, nóg er af þeim. Einnig betri tíma. Minna er af þeim. Hafi síðustu ár verið góðir tímar fyrir verkafólk þá blasir við að nú þarf að gjalda fyrir þá. Tvöfalt, þrefalt eða hver veit hvað. Greinilegt er að ekki eru öll rangindin komin upp á borðin. Þrátt fyrir nýja slagorðið um „allt upp á borðið.“
Grunur læðist að um að ráðamenn vilji ekki sýna vandamálin eins og þau eru fyrir en eftir kosningar. Það verður ekki auðvelt að kjósa.
Það er held ég rétt hjá þér að það á margt eftir að koma framm. Ég held þeir hafi ekki sagt okkur hvað þeir eru búnir að tapa miklu af lífeyrisjóðunum okkar, grunar að það sé mikið meira en þeir eru búnir að upplýsa. Ég hefði viljað persónukjör ekki þetta flokkabatterí, en ég fæ víst ekki að ráða því. Það verður ekki gott að vita hvert atkvæðið á að fara. Ekki ætla ég að verðlauna þá sem afhentu allar eigur almennings einkaaðilum á síðustu árum. Kær kveðja til þín.